Námskeið í brautarvörslu

Fimmtudaginn 23. maí fór fram námskeið í brautarvörslu í götuhlaupum og mættu í kringum 25 manns á námskeiðið.

Námskeiðið var haldið svo að hlaupshaldarar gætu kynnst því hvernig ætti að framkvæma hlaup samkvæmt reglugerðum. Þetta á sérstaklega við um hlaup sem valin eru sem Íslandsmeistaramót.

Námskeiðið hófst á því að Jóna Hildur Bjarnadóttir, hjá ÍBR, tók á móti hópnum og sagði frá Reykjavíkurmaraþoninu og breytingunum sem verða á því í ár. Eftir það fór Sigurður Haraldsson úr dómnefndinni yfir reglur og dómgæslu tengdum götuhlaupum.

Markmið námskeiðisins var að þjálfa upp góðan hóp af ábyrgum brautarvörðum sem þekkja reglurnar og geta leiðbeint hlaupshaldara til að tryggja örugga brautargæslu.

Næsta námskeið verður líklegast haldið aðra vikuna í ágúst sem er þá um það bil tíu dögum fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Það verður auglýst betur síðar.