Næst lengsta kast Hilmars frá upphafi

Í Laugardalnum í dag fór fram Vetrarkastmót þar sem keppt var í kringlukasti og sleggjukasti. Á meðal keppenda var Hilmar Örn Jónsson sem á Íslandsmetið í sleggjukasti.

Hilmar Örn var að reyna við Ólympíulágmarkið í sleggjukasti sem er 77,50 metrar. Hilmar kastaði í dag 74,16 metra sem er hans annað lengsta kast frá upphafi en lengsta kast hans er 75,26 metrar sem er Íslandsmetið í greininni. Hilmar er vongóður um að hann nái lágmarkinu fyrir leikanna og miðað við árangurinn í dag þá er hann greinilega í hörkuformi og var að kasta langt þrátt fyrir snjókomu og kulda.

Hilmar Örn getur einnig unnið sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikana með því að vera meðal 32 efstu á heimslistanum. Hann er nú í 41. sæti en góður árangur á sterkum mótum gefur stig fyrir heimslistann. Mótið í dag taldi til stiga og haldi hann áfram að kasta álíka vel og í dag ætti hann að fikra sig upp listann.

Á vef RÚV má sjá myndband frá kasti Hilmars á mótinu í dag.

Á mótinu kepptu einnig Mímir Sigurðsson og Ingvar Karl Jónsson í kringlukasti. Mímir kastaði 41,52 metra og Ingvar Karl 33,94 metra. Hér má sjá heildar úrslit mótsins.

Hilmar Örn