Móttaka fyrir þátttakendur á Ólympíuleikum ungmenna

Valdimar, Elísabet og Guðbjörg ásamt Frey Ólafssyni formanni FRÍ og Brynjari Gunnarsyni þjálfara

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stóð í gær fyrir móttöku til heiðurs þátttakendum á Ólympíuleikum ungmenna sem fóru fram í Buenos Aires í Argentínu. Frjálsíþróttasamband Íslands átti þrjá keppendur á leikunum. Elísabetu Rut Rúnarsdóttur sem keppti í sleggjukasti, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur sem keppti í 200 metra hlaupi og Valdimar Hjalta Erlendsson sem keppti í kringlukasti. Alls voru íslenskir keppendur níu, í frjálsíþróttum, fimleikum, golfi og sundi.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði á leikunum í 200m hlaupi stúlkna og er það í fyrsta sinn sem að íslenskur keppandi vinnur til gullverðlauna á leikum á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar. Valdimar Hjalti varð í sjötta sæti í kringlukasti og Elísabet Rut varð 16. í sleggjukasti.

Við móttökuna ávarpaði hópinn Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og sýndar voru myndir frá þátttöku Íslendinga á leikunum. Forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal og framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir, afhentu þátttakendum viðurkenningu fyrir þátttökuna frá ÍSÍ og Alþjóða Ólympíunefndinni.

H Verslun sem er styrktaraðili Frjálsíþróttasambandsins veitti svo okkar keppendum gjöf fyrir þáttöku á mótinu.