Mótahald 2020

Frjálsíþróttasamband Íslands vill í ljósi þeirra aðstæðna sem þjóðin og heimsbyggðin öll standa frammi fyrir vekja athygli á að um verulega röskun getur orðið að ræða er varðar mótahald í frjálsum íþróttum árið 2020. Mótaskráin 2020 er því frekar til viðmiðunar í stað þess að aðildarfélög og iðkendur geti gengið að því vísu að mótahaldið gangi eftir. FRÍ vill einnig hvetja alla til að fara eftir og virða þær reglur sem settar hafa verið m.a. um gildandi samkomubann og að allt íþróttastarf falli niður. FRÍ vill jafnframt minna á mikilvægi þess að aðildarfélögin sinni stjórnsýslu sinni t.d. rafrænt og haldi áfram ótrauð þrátt fyrir að skipulagt íþróttastarf sé ekki til staðar. Þá er mikilvægt að félögi haldi áfram að þjónusta sína iðkendur með þeim hætti sem mögulegt er s.s. með samskiptum og fjar- og heimaæfingum.

Margir þjálfarar og íþróttamenn hafa verið duglegir að setja inn myndbönd frá æfingum á instagram og við deilum því áfram á instagram reikning FRÍ, sem er icelandathletics. Endilega haldið því áfram.

Eins og við höfum nefnt áður þá má ekki gleyma mikilvægi þess að halda góðri andlegri og líkamlegri heilsu á þessum fordæmalausu tímum. Því hefur aldrei verið betri tíma til að fara út að ganga, hlaupa og skokka!