Mögnuðum ferli Ásdísar lokið

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud keppti í gær í síðasta skiptið á ferlinum á Castorama mótinu í Svíþjóð. Ásdís keppti í kastgreinunum fjórum; kúluvarpi, spjótkasti, kringlukasti og sleggjukasti. Í kúluvarpi kastaði hún 15,78 metra, í spjótkasti 60,49 metra, í kringlukasti 52,29 metra og 42,43 metra í sleggjukasti.

Íslandsmet Ásdísar er 63,43 metrar sem hún setti í Finnlandi í júlí árið 2017. Ásdís bætti metið fyrst árið 2005 þegar hún kastaði 57,10 metra og bætti það í heildina sjö sinnum. Ásdís á einnig Íslandsmetið í kúluvarpi utanhúss. Hún setti það í október á síðasta ári og þá hafði metið staðið í 27 ár.

Ásdís hefur átt magnaðan íþróttaferil og verið með þeim fremstu í heiminum í sinni grein í meira en áratug. Hún hefur keppt á fimm Evrópumeistaramótum og fimm Heimsmeistaramótum. Á EM náði hún bestum árangri þegar hún lenti í áttunda sæti í Hollandi árið 2016 og á HM þegar hún varð ellefta í London 2017. Ásdís keppti á þrennum Ólympíuleikum, árin 2008, 2012 og 2016. Hún hafði sett stefnuna á að keppa á sínum fjórðu leikum í Tókýó í sumar en þeim var frestað um eitt ár og fara því fram sumarið 2021. En þrennir Ólympíuleikar á ferlinum er árangur sem allir heimsklassa íþróttamenn geta verið stoltir af.