Mikilvægt að hafa gaman

Glódís Edda Þuríðardóttir er efnileg fjölþrautarkona úr KFA. Hún keppti síðasta sumar fyrir Íslands hönd á Evrópubikar í þraut og var hluti af liði Íslands sem sigraði í 3. deild í Evrópubikarkeppni landsliða. Glódís mun keppa í sex greinum á Meistaramóti Íslands á Akureyri um helgina og er því á heimavelli.

Mamma og bróðir helstu fyrirmyndirnar

Glódís Edda hefur ekki langt að sækja áhugann í frjálsar og fjölþraut því mamma hennar keppti í sjöþraut og bróður hennar í tugþraut. Bróðir Glódísar er Andri Gíslason sem einnig mun keppa á MÍ helgina. Glódís segir að þau séu hennar helstu fyrirmyndir og ástæðan fyrir því að hún byrjaði í frjálsum. 

Varðandi æfingar undanfarið segir Glódís: „Ég er búin að vera að glíma við meiðsli og því ekki getað gert allt sem áætlað var. Þrátt fyrir að hafa þurft að endurskipuleggja og fara aðrar leiðir hafa æfingarnar gengið nokkuð vel. Ég hef ekki verið að leggja áherslu á einn hlut eða eina grein sérstaklega en ég legg áherslu á tækni.“

Glódís fyrir 100m grind síðustu helgi þar sem hún setti mótsmet
Evrópubikar í þraut eftirminnilegasta afrekið

Glódís segir að það fyrsta sem komi upp í hugann þegar hún hugsar um eftirminnilegasta afrekið sé Evrópubikar í þraut á Madeira í Portúgal síðasta sumar. „Þar kláraði ég mína fyrstu kvenna þraut og ég man hvað ég var ofsalega glöð þegar ég kláraði. Þetta var kannski ekki góð þraut stigalega séð en tilfinningunni mun ég aldrei gleyma.“

Um helgina keppir Glódís í sex greinum sem er mesta allra keppanda. Hún segir að markmið sitt sé að gera sitt besta í hverri grein fyrir sig og sjá hvað kemur út úr því. „Auðvitað væri gaman að sjá bætingu í einhverju en ef ekki núna þá næst,“ segir Glódís. 

Mikilvægt að hafa gaman

„Já að halda einbeitingu getur verið krefjandi sérstaklega þegar dagarnir eru langir. Skipulag og rútína fyrir hvern dag er eitthvað sem ég geri, ég reyni líka að vera ekki að hugsa um of mikið í einu því það er bara til þess að rugla mann. Seinni daginn geri ég það sama og fyrri nema ég nýti kannski tónlistina meira uppá peppið,“ segir Glódís um það hvernig hún haldi einbeitingu yfir heila keppnishelgi. 

Aðspurð um ráð til yngri iðkenda segir Glódís að ekki eigi að taka hlutunum of alvarlega. “Þó það gangi ekki allt upp þá reyna að finna það góða í því sem gert var og svo er mikilvægt að hafa gaman að því sem maður er að gera.“

Glódís á MÍ 15-22 ára um síðustu helgi