MÍ í fjölþrautum

Um helgina fer fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum. Mótið fer fram á Þórsvelli á Akureyri og hefst klukkan eitt á laugardeginum og stendur yfir til sex á sunnudeginum. 25 keppandi er skráður til keppni frá ellefu félögum í sjö flokkum.

Í tugþraut karla eru sex keppendur og þar má helst nefna Benjamín Jóhann Johnsen, ÍR og Ísak Óla Traustason, UMSS. Þeir voru báðir á meðal keppenda á Evrópubikar í fjölþrautum fyrr í sumar. Benjamín fór í fyrsta skipti yfir sjöþúsund stig í sumar og hefur gert það tvisvar sinnum. Hans besti árangur er 7146 stig sem er tíundi besti árangur Íslendings í tugþraut. Ísak Óli á næstbestan árangur keppenda um helgina. Hans besta þraut er 6723 stig og er hann í 22. sæti afrekalistans. Þeir hafa báðir átt flott tímabil í ár og verður gaman að sjá hvað þeir gera um helgina.

Í sjöþraut kvenna keppa María Rún Gunnlaugsdóttir, FH og Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK. María Rún hefur verið ein fremsta frjálsíþróttakona Íslands undanfarin ára. Hún vann til bronsverðlauna á Evrópubikar í fjölþrautum fyrr í sumar. Á því móti hlaut hún 5562 stig sem er hennar besti árangur frá upphafi og er hún í fjórða sæti íslenska afrekalistans. Fjóla Signý á einnig yfir fimm þúsund stig í sjöþraut en einungis tólf íslenskar konur hafa náð þeim áfanga. Besta þraut Fjólu er 5041 stig frá árinu 2012 og er hún í ellefta sæti afrekalistans.

Einnig keppir mikið af ungu og efnilegu frjálsíþróttafólki á mótinu um helgina. Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA keppir í sjöþraut í flokki stúlkna 16-17 ára. Hún var hluti af Evrópubikarsliðinu sem vann gull út í Norður Makedóníu síðustu helgi. Dagur Fannar Einarsson, HSK keppir í tugþraut í flokki pilta 16-17 ára en hann var á meðal keppenda á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fór í Aserbaídsjan fyrr í sumar.

Hér má sjá tímaseðil og keppendalista fyrir mótið.

Um helgina fer einnig fram MÍ öldunga á Þórsvellinum. Þar hefst keppni klukkan 10 bæði á laugardeginum og sunnudeginum og stendur yfir til 13. Tímaseðil og úrslit þegar þau birtast má sjá hér.