MÍ í fjölþrautum um helgina

Tveir dagar. Tíu greinar fyrir karla, sjö greinar fyrir konur. Stífir vöðvar eða sterkir vöðvar. Þol eða þreyta. Einbeiting eða einbeitingarskortur. Hver stendur uppi sem sigurvegari?

Um helgina fer fram MÍ í fjölþrautum á Laugardalsvelli. Þar mun okkar helsta fjölþrautarfólk koma saman og berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Keppni hefst klukkan 13:00 á morgun og síðasta grein fer af stað klukkan 17:30 á sunnudeginum.

Við fengum Inga Rúnar og Maríu Rún Íslandsmeistari í karla- og kvennaflokki í fyrra til að svara nokkrum spurningum fyrir mótið í ár.

 

Hvernig er þér búið að ganga að æfa í vetur og hvað hefur þú verið að leggja áherslu á?

Ingi Rúnar: Æfingar í vetur gengu nokkuð vel þrátt fyrir smá bakslög sem komu í veg fyrir að ég gæti æft eins og ég vildi. Enginn sérstök áhersla hefur verið þennan veturinn frá þeim síðustu, bara sinna sem flestum greinum, úthaldi og styrk.

Æfingarnar frá páskum hafa gengið brösulega, þar sem ég er búinn að vera eiga við magakveisu og leiðindi í kjölfarið. Er bara búinn að ná að æfa vel í þrjár vikur og nýfarinn að líkjast sjálfum mér aftur.

María Rún: Æfingarnar hafa gengið mjög vel. Ég reyni að taka allar tæknigreinarnar  fyrir í hverri viku ásamt sprinti, lyftingum og þolæfingum.

 

Ertu búinn að setja þér einhver markmið fyrir þetta mót?

Ingi Rúnar: Aðal markmiðið er að verja titilinn aftur. Ég er ekki búinn að vera pæla mikið í markmiðum stigalega séð fyrir þessa þraut.

María Rún: Fer inn í þetta mót með það markmið að gera mitt besta í hverri grein og bæta mig stigalega séð í þrautinni.

 

Hvernig heldur þú einbeitingu í gegnum svona langa keppni og hvernig gírar þú þig upp fyrir seinni daginn?

Ingi Rúnar: Það er mjög mikilvægt að vera jákvæður og ekki láta það fara í taugarnar á sér ef einhverjar greinar ganga ekki eins vel og maður vildi. Það koma alltaf tímapunktar þar sem líkaminn á manni er að reyna segja manni að hætta þessu en þá verður maður að bíta á jaxlinn og hugsa hvað manni langar þetta mikið og fara þetta á viljastyrknum. Ég reyni líka að stýra spennustiginu á mér, semsagt ná að slaka á milli greina og gíra mig upp fyrir átök en það getur oft bæði verið erfitt.

Það er yfirleitt erfitt að koma sér í gang fyrir seinnidaginn, allur súr og stirður. Þá er mikilvægt að hafa skokkað niður og teygt vel á sér eftir fyrri daginn. Maður þarf að vakna snemma og koma blóðflæðinu af stað. Byrja að hita upp einum og hálfum tíma fyrir grindahlaupið til að hita vel upp og liðka. Maður þarf líka að reyna gleyma hvernig manni líður og koma sér í keppnisham.

María Rún: Ég hlusta á einhverja geggjaða tónlist til að koma mér í smá stemningu. Síðan verður maður bara að taka eina grein í einu og einbeita sér að  henni, einnig er mikilvægt ná að hvíla sig milli greina og næra sig. Þó svo að einhver grein gangi illa þá verður maður að halda haus og negla bara á næstu.

 

Stefnir þú á einhver mót erlendis í sumar, annaðhvort í fjölþraut eða í einstaka greinum?

Ingir Rúnar: Ég stefni á að taka minnsta kosti eina þraut í viðbót erlendis. Ég ætlaði mér að vera búinn að fara í gegnum eina í byrjun júní sem ég sleppti útaf veikindum.

María Rún: Ég er að fara til Gautaborgar næstu helgi og tek einhverjar greinar þar, síðan stefni ég á að finna einhverja þraut úti seinna í sumar.

 

Átt þú einhverjar fyrirmyndir í frjálsum og hvaða ráð myndir þú sjálfur gefa yngri iðkendum.

Ingir Rúnar: Ég er búinn að horfa á mjög mikið af myndböndum af tugþrautarköppum alveg frá því 70´ til dagsins í dag og eru þeir margir gífurlega flottir íþróttamenn en mér finnst Roman Sebrle fyrrum heimsmethafi standa þar uppúr. Svakalega vel þjálfaður og svo gaman að sjá hvað hann var ánægður þegar hann gerði vel. Hann á 49 tugþrautir yfir 8000 stig og var hann líka að til 38 ára aldur sem er virkilega aðdáunarvert í grein eins og tugþraut.

Ráð sem ég myndi gefa ungum krökkum í sambandi við tugþraut að ekki fara of geyst í hlutina. Það tekur tíma að verða góður í svona mörgum greinum og auðvelt að æfa of mikið. Þolinmæði þrautir vinnur allar.

Og svo muna að brosa.

María Rún: Mér finnst Nafi Thiam belgíska þrautarstelpan geggjuð og fylgist ég mikið með henni.

Þau ráð sem ég myndi gefa yngri krökkum varðandi þraut er að vera þolinmóð og hafa gaman að þessu. Það er mjög erfitt að ná sínum besta árangri í hverri einustu grein og þó svo ein grein klikki þá þýðir ekkert að svekkja sig, bara negla á næstu grein.