MÍ í fjölþrautum um helgina

Um helgina fer fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum. Mótið fer fram í Laugardalshöllinni og hefst klukkan tólf á laugardeginum og stendur yfir til rúmlega þrjú á sunnudeginum. 41 keppandi er skráður til keppni frá 13 félögum í sjö flokkum.

Í sjöþraut karla eru ellefu keppendur og þar má helst nefna Einar Daða Lárusson úr ÍR sem er annar besti tugþrautarkappi í sögu Íslands. Aðeins Jón Arnar Magnússon hefur náð betri árangri en hann. Einar Daði hefur verið óheppinn með meiðsli síðastliðin ár og ekki keppt í sjöþraut síðan árið 2015. Einnig er Ísak Óli Traustason, UMSS, sem varð annar á MÍ fjölþrautum utanhúss síðasta sumar og Benjamín Jóhann Johnsen, ÍR sem varð þriðji, meðal keppenda. Ingi Rúnar Kristinsson, ríkjandi Íslandsmeistari í sjöþraut verður því miður ekki með vegna meiðsla.

Í fimmtarþraut kvenna eru fimm keppendur. Þar á meðal eru María Rún Gunnlaugsdóttir, FH og Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki. María Rún er margfaldur Íslandsmeistari og hefur verið ein fremsta frjálsíþróttakona Íslands síðastliðin ár. Hún keppti síðast erlendis í hástökki á Norðulandamótinu sem fór fram síðustu helgi. Irma Gunnarsdóttir varð Norðurlandameistari 22 ára og yngri í sjöþraut síðasta sumar og er í tíunda sæti afrekalistans í fimmtarþraut.

Hér má sjá tímaseðil mótsins og fylgjast með úrslitum. Boðsbréf mótsins má nálgast hér

Um helgina fer einnig fram MÍ Öldunga í Laugardalshöllinni. Þar hefst keppni klukkan 10 bæði á laugardeginum og sunnudeginum og stendur yfir til 13. Tímaseðil og úrslit þegar þau birtast má sjá hér.