MÍ í fjölþrautum um helgina

Meistaramót Íslands í fjölþrautum fer fram í Laugardalshöll um helgina, 20.-21. febrúar. Það eru 43 keppendur skráðir á mótið frá ellefu félögum. Keppni hefst klukkan ellefu báða dagana og eru áhorfendur bannaðir á keppnina. 

Ríkjandi Íslandsmeistarar meðal keppenda

Meðal keppenda í sjöþraut karla er Ísak Óli Traustason úr UMSS en hann er ríkjandi Íslandsmeistari í greininni. Hann á best 5344 stig frá meistaramótinu fyrir tveimur árum.

„Ég er bara mjög vel stemmdur. Hlakka til að keppa í þraut aftur og ætla bara að hafa gaman og njóta þess að keppa“

Ísak Óli

Með Ísaki verður meðal annars Íslandsmeistarinn í tugþraut, Benjamín Jóhann Johnsen sem á best 5200 stig, Gunnar Eyjólfsson úr UFA sem á best 5025 stig og FH-inguinn Árni Björn Höskuldsson sem á best 4313 stig.

Í fimmtarþraut kvenna eru tvær konur skráðar og eru þær báðar í FH. Ríkjandi Íslandsmeistarinn í greininni María Rún Gunnlaugsdóttir er þar á meðal. Hún á best 4094 stig og er að koma til baka úr tíu mánaða meiðslum og er í hörku formi. Hún byrjaði tímabilið gríðarlega vel með persónulega bætingu í 60 metra grindahlaupi og var við sitt besta í hástökki.

Er bara ágætlega stemmd. Grindin og hástökkið hefur allavega gengið vel á seinustu mótum en hef ekkert keppt í hinum greinunum. En ég er bara spennt fyrir mótinu.

María Rún

Ásamt henni mun Þórdís Eva Steinsdóttir láta reyna á þrautina. Þórdís er þekktust sem 400 metra hlaupari og hefur unnið sér inn fjölda Íslandsmeistaratitla í þeirri grein. Þess má þó geta að Þórdís á aldursflokkamet í fimmtarþraut 14 ára, 15 ára og 16-17 ára stúlkna.

Spennandi piltakeppni

Það verður hörku keppni í piltaþrautinni þar sem ÍR-ingurinn Dagur Fannar Einarsson og Akureyringurinn Birnir Vagn Finnsson mætast í spennandi keppni. Dagur hefur nú þegar náð lágmarki á Norðurlandameistaramóti í þraut en lágmarkið fyrir þeirra aldursflokk er 6511 stig í tugþraut og er Birnir alveg við lágmarkið. Dagur á best 4776 stig í sjöþraut og er í hörku formi. Þriðji keppandinn í piltakeppninni er ÍR-ingurinn Egill Smári Tryggvason en hann er aðallega í hástökki en tekur þraut um helgina.

Blikinn Birna Kristín Kristjánsdóttir er búin að sýna það og sanna að hún er í frábæru formi. Hún á best 3550 stig frá meistaramótinu í fyrra sem var hennar fyrsta þraut. Hún er frábær grindahlaupari og langstökkvari, nýlega búin að setja aldursflokkamet í báðum greinum og stefnir nú alfarið á þrautina. Það er Katrín Tinna Pétursdóttir úr Fjölni sem ætlar að veita henni samkeppni en þær eru tvær skráðar í 18-19 ára flokkinn.

Birna Kristín

Keppendalista og tímaseðil má finna hér.