MÍ í fjölþrautum um helgina

Um helgina, 22. – 23. ágúst, fer fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum. Mótið fer fram í Kaplakrika í Hafnafirði og hefst keppni klukkan eitt bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Sautján keppendur eru skráðir á mótið um helgina frá níu félögum.

Á meðal keppenda er Íslandsmeistarinn í tugþraut frá því í fyrra, Benjamín Jóhann Johnsen úr ÍR. Benjamín fór í fyrsta skipti yfir sjöþúsund stig í tugþraut síðasta sumar og er hann í tíunda sæti íslenska afrekalistans með 7146 stig. Þeim árangri náði hann á Evrópubikar í fjölþrautum á Madeira. Akureyringar Gunnar Eyjólfsson, UFA og Andri Fannar Gíslason, KFA munu eflaust veita Benjamín harða samkeppni en þeir eiga báðir rétt tæp 6500 stig.

Einnig keppa um helgina ungir og efnilegir piltar. Dagur Fannar Einarsson, Selfoss, Birnir Vagn Finsson, UFA og Markús Birgisson, Breiðablik hafa gert góða hluti á MÍ í aldursflokkum. Þar hafa þeir unnið til fjölda verðlauna og eru líklegir til afreka í tugþraut á næstu árum.

Í sjöþraut kvenna eru tvær konur skráðar til keppni, Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir, KFA og Þórdís Eva Steinsdóttir, FH. Rakel Ósk keppti síðast í sjöþraut árið 2013 en Þórdís mun keppa í sinni fyrstu sjöþraut um helgina. Þórdís er þekktust sem 400 metra hlaupari en í þeirri grein hefur hún orðið margfaldur Íslandsmeistari. Þórdís hefur keppt í fimmtarþraut innanhúss þar sem hún aldursflokkamet 14 ára, 15 ára og 16-17 ára stúlkna.

Keppendalista og tímaseðil má sjá hér.