MÍ í fjölþrautum – Seinni dagur

Seinni dagur sjöþrautarinnar í karlaflokki fór fram á MÍ í fjölþrautum í gærdag. Keppt var í 60 m grindahlaupi, stangarstökki og 1000 m hlaupi í flokki pilta 16-17 ára, pilta 18-19 ára og karla.

Ragúel Pino Alexandersson UFA leiddi sjöþrautarkeppnina í flokki 16-17 ára pilta eftir fyrri daginn með 2488 stig.

Keppni hófst á 60 m grindahlaupi pilta 16-17 ára en þar bar Jón Þorri Hermannsson KFA sigur úr býtum á tímanum 8,74 sek. Ragúel Pino Alexandersson UFA kom fast á hæla hans á tímanum 8,94 sek og Úlfur Árnason ÍR var þriðji á 9,06 sek. Ragúel nældi sér í flest stig í stangarstökki er hann fór yfir 3,40 m, Úlfur Árnason var annar með 3,30 m og Mikael Daníel Guðmarsson ÍR þriðji með 2,90 m. Í lokagreininni, 1000m hlaupi kom Jón Þorri Hermansson KFA fyrstur í mark á tímanum 2:45,16 mín, Ragúel Pino Alexandersson UFA var annar á 2:45,20 mín og Dagur Fannar Einarsson Selfossi var þriðji á 2:50,50 mín. Ragúel og Dagur settu báðir persónulegt met í hlaupinu. Ragúel Pino Alexandersson hlaut flest stig í þrautinni eða 4521 stig sem er persónulegt met hjá honum. Jón Þorri Hermansson hafnaði í 2. sæti með 4370 stig og Dagur Fannar Einarsson Selfossi var þriðji með 4090 stig. Frábær árangur hjá þeim!

Ægir Örn Kristjánsson Breiðabliki sem keppir í flokki pilta 18-19 ára kom í mark í 60 m grindahlaupi á persónulegu meti, 9,31 sek. Hann setti einnig persónulegt met í stangarstökki er hann stökk yfir 3,50 m og bætti einnig besta árangur sinn í 1000 m hlaupi er hann hljóp á tímanum 2:58,93 mín. Hlaut hann samtals 4071 stig fyrir þrautina og bætti sig í öllum sjö greinunum. Glæsilega gert hjá honum!

Í karlaflokki var staðan sú eftir fyrri daginn að Ísak Óli Traustason UMSS var í forystu með 2957 stig og Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki skammt á eftir honum með 2910 stig.

Ísak Óli Traustason UMSS bar sigur úr býtum í fyrstu grein dagsins, 60 m grindahlaupi, og hljóp hann á tímanum 8,34 sekúndum sem er persónulegt met hjá honum. Benjamín Jóhann Johnsen ÍR kom annar í mark á tímanum 8,77 sek sem er jafnframt persónulegt met og Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki var þriðji á 8,78 sek.

Guðmundur Karl Úlfarsson Ármanni bar sigur úr býtum í stangarstökki er hann fór yfir 4,60 m. Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki varð annar en hann fór einnig yfir 4,60 m. Ari Sigþór Eiríksson Breiðabliki hafnaði í 3. sæti er hann fór yfir 4,40 m sem jafnframt er persónulegt met hjá honum.

Hart var barist í síðustu grein dagsins, 1000 m hlaupi. Ingi Rúnar sigraði í hlaupinu á tímanum 2:46,79 mín, Ísak Óli varð annar á 4:49,66 mín og Bjarki Rósantsson Breiðabliki þriðji á 2:52,37 mín.

Ingi Rúnar sigraði sjöþrautina með 5294 stig, Ísak Óli varð annar á persónulegu meti með 5214 stig og Guðmundur Karl var þriðji með 5002 stig.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.

Efstu þrjú sætin í karlaflokki

 

Efstu þrjú sætin í flokki pilta 16-17 ára.

Ægir Örn hafnaði í 1. sæti í flokki 18-19 ára pilta