MÍ í fjölþrautum 2018 – fyrri dagur

Keppni í fimmtarþraut fer fram á fyrri degi mótsins. Í fimmtarþraut kvenna var Gunnhildur Gígja Ingvadóttir úr Aftureldingu eini keppandinn, kláraði þrautina og því Íslandsmeistari 2018.

Meiri keppni var í fimmtarþraut 16-17 ára stúlkna. Eftir þrjár greinar leiddi Helga Margrét Haraldsdóttir ÍR með nokkrum yfirburðum, en svo náði hún ekki gildu langstökki. Við kyndlinum tók Blikinn Katla Rut Róbertsdóttir og landaði hún Íslandsmeistaratitli með 3001 stigi. Í öðru sæti var Signý Hjartardóttir úr Fjölni og því þriðja ÍR-ingurinn Fanney Rún Ólafsdóttir.

Í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri mætti einn til leiks, Mosfellingurinn Guðmundur Auðunn Teitsson. Guðmundur lauk þraut með 1796 stigum og Íslandsmeistaratitli.

Sjöþraut tekur yfir báða dagana, keppt er í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára pilta og í karlaflokki. Í flokki 16-17 ára pilta leiðir eftir fyrri dag Ragúel Pino Alexandersson frá UFA með 2488 stig. Fast á hæla honum koma Jón Þorri Hermannsson KFA og Dagur Fannar Einarsson Selfossi. Í flokki 18-19 ára pilta er einn keppandi, Ægir Örn Kristjánsson úr Breiðabliki. Hann setti pb í öllum greinum dagsins.

Í karlaflokki eru keppendur 8, mörg ár síðan svo margir hafa keppt í karlaflokki á þessu móti.

Að loknum fyrri degi er Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason í forystu með 2957 stig og Blikinn Ingi Rúnar í humátt á eftir með 2910 stig. Ísak setti pb í þremur greinum af fjórum í dag. Keppni hefur verið skemmtileg og mjög spennandi, keppendur pb-að hver um annan þveran. Í 60 m hlaupi settu 6 af 8 pb, í hástökki komu fjögur pb,eitt sb og tveir jöfnuðu sb. Stuð á strákunum sem lofar svo sannarlega góðu um framhaldið.