MÍ á Akureyri um helgina

Helgina 25.-26. júlí fer fram Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum. Mótið fer fram á Þórsvelli á Akureyri og hefst klukkan 12:00 á laugardeginum á riðlakeppni í 100 metra hlaupi. Síðasta grein mótsins er svo 4×400 metra boðhlaup klukkan 15:20 á sunnudeginum. Á meðal keppenda verður flest fremsta frjálsíþróttafólk landsins sem mun keppast um 37 Íslandsmeistaratitla. Alls eru 177 keppendur frá þrettán félögum skráðir til keppnis og þar á meðal eru Ólympíufari, Íslandsmethafar og landsliðsfólk.

Hraðasta fólk Íslandssögunnar

Í spretthlaupsgreinunum á MÍ má finna marga hraða keppendur. Í 100 metra hlaupi kvenna eru ÍR-ingarnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth báðar skráðar. Þær brutu blað í sögunni síðasta sumar þegar þær hlupu hvor um sig tvisvar sinnum undir Íslandsmetinu í 100 metra hlaupi, sem staðið hafði í fimmtán ár. Aðeins 1/100 úr sekúndu skilur þær að en það er Guðbjörg sem á Íslandsmetið. Í 200 metra hlaupi eiga þær einnig tvo bestu tíma sögunnar þar sem Guðbjörg hefur hlaupið hraðar.

Úrslitin í 100 metra hlaupi kvenna eru klukkan 14:50 á laugardeginum og í 200 metra hlaupinu á sunnudeginum klukkan 14:40.

Í 100 og 200 metra hlaupi karla er Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH, líklegur til afreka. Í 100 metrum á hann hraðasta tíma Íslendings í ár og bestan tíma keppenda. Hann er jafnframt sá eini sem hlaupið hefur undir 11 sekúndum við löglegar aðstæður í ár, eða á 10,63 sekúndum sem er aðeins 5/100 frá hans besta. Annan og þriðja besta tímann í 100 metrum í ár eiga þeir Dagur Andri Einarsson, ÍR, og Óliver Máni Samúelsson, Ármanni. Þeir hafa í löglegum aðstæðum báðir hlaupið á réttum rúmum 11 sekúndum og eru líklegir til þess að berjast um verðlaunasæti. Í 200 metra hlaupi á Kolbeinn Íslandsmetið og er sá eini frá upphafi sem hlaupið hefur vegalengdina undir 21 sekúndu.

Úrslitin í 100 metra hlaupi karla eru klukkan 14:55 á laugardeginum og í 200 metra hlaupinu á sunnudeginum klukkan 14:50.

Íslandsmethafar í sleggjukasti

Í sleggjukasti kvenna má búast við mikilli keppni þar sem Íslandsmethafinn Vigdís Jónsdóttir úr FH og fyrrum Íslandsmethafinn, Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR, mætast. Vigdís er búin að eiga frábært tímabil þar sem hún er búin að bæta Íslandsmetið fjórum sinnum í sumar og þrettán sinnum frá upphafi. Vigdís bætti metið fyrst árið 2014 og átti það þar til Elísabet tók það af henni í fyrra og stóð það þar til Vigdís náði því til baka í upphafi sumars.

Í karlaflokki verður gaman að fylgjast með Hilmari Erni Jónssyni. Hilmar á Íslandsmetið í greininni og hefur keppt á HM. Hann hefur einnig gert það gott á bandaríska háskólameistaramótinu og er hann líklegur til þess að komast inn á Ólympíuleikana næsta sumar.

Sleggjukastið hefst klukkan 11:10 á sunnudeginum.

EM farar í langstökkinu

 Í langstökki karla verður sigurvegarinn í fyrra og ríkjandi Íslandsmeistari, Arnór Gunnarsson, Breiðabliki, á meðal keppenda. Einnig er Ísak Óli Traustason, UMSS, líklegur til afreka en hann varð annar á MÍ síðasta sumar og er ríkjandi Íslandsmeistari innnahúss. Bestan árangur frá upphafi og í ár á Kristinn Torfason, FH, og því gæti hann bætt enn einum titilinum í safnið í ár. Þó nokkrir fleiri koma til greina og því er ljóst að hart verður barist um sæti á verðlaunapalli.⁣⁣

Í kvennaflokki er Hafdís Sigurðardóttir, UFA, sigurstrangleg. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í greininni, á Íslandsmetið bæði innanhúss og utanhúss og hefur keppt nokkrum sinnum á EM. Hún mun fá góða samkeppni frá Maríu Rún Gunnlaugsdóttur, FH, og Hildigunni Þórarinsdóttur, ÍR,sem urðu í öðru og þriðja sæti á MÍ í fyrra ásamt fleirum sterkum keppendum. María er fremsta fjölþrautarkona landsins og er langstökkið ein af hennar sterkustu greinum. Hildigunnur byrjaði tímabilið vel með bætingu í upphafi sumars og gæti stokkið enn lengra á MÍ⁣⁣.

Ólympíufari, Íslandsmethafar og landsliðssfólk

Guðni Valur Guðnason úr ÍR mun mæta og keppa í kringlukasti. Hann er á meðal þeirra bestu í heiminum og keppti í greininni á síðustu Ólympíuleikum. Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR, mun keppa í kúluvarpi. Hún á Íslandsmetið innanhúss og vann til bronsverðlauna á EM U20 síðasta sumar. Í spjótkasti er Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, á meðal keppenda. Hann komst í úrslit á EM U23 síðasta sumar og stefnir á langt kast um helgina. Í lengri hlaupunum keppir Arnar Pétursson, Breiðabliki. Hann er besti maraþonhlaupari Íslands en um helgina hleypur hann 800 metra, 1500 metra, 3000 metra hindrun og 5000 metra hlaup. Í 400 metra hlaupinu eru FH-ingarnir Þórdís Eva Steinsdóttir og Kormákur Ari Hafliðason sigurstrangleg. Í hástökki karla mæti Kristján Viggó Sigfinsson, Ármanni, til keppni en hann er Norðurlandameistari 19 ára og yngri.

Hér má sjá tímaseðil og úrslit þegar þau berast