MÍ 15-22 ára um helgina

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram um helgina, 18.-19. júlí í Kaplakrika. Mótið hefst klukkan 9:00 og stendur yfir til 17:15 á laugardeginum og frá 10:00 til 15:45 á sunnudeginum. 205 keppendur frá nítján félögum víðs vegar um landið eru skráðir til keppni ásamt gestakeppendum frá Færeyjum. Sigurliðið í fyrra í samanlagðri stigakeppni allra flokka var ÍR. Búast má við sterkri og spennandi keppni í ár þar sem á meðal keppenda er hluti af fremsta frjálsíþróttafólki Íslands og keppendur sem unnið hafa til verðlauna á NM og EM unglinga.

Norðurlandameistari unglinga

Á meðal keppenda er Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni. Kristján er þrátt fyrir ungan aldur besti hástökkvari landsins og er ríkjandi Íslandsmeistari í hástökki bæði innanhúss og utanhúss. Hann bætti í upphafi árs 23 ára gamalt aldursflokkamet í hástökki þegar hann stökk yfir 2,13 metra. Stuttu síðar bætti hann eigið met þegar hann stökk 2,15 metra. Hans besti árangur utanhúss er 2,13 metrar og með því stökki varð hann Norðurlandameistari 19 ára og yngri síðasta sumar. Kristján keppir klukkan 10:40 á laugardeginum í flokki pilta 16-17 ára.

Kristján Viggó
Efnilegustu kastarar í Evrópu

Íslendingar hafa lengi átt góða kastara sem náð hafa langt á alþjóðlegum vettvangi. Fleiri ungir kastarar eru að koma upp og hafa nú þegar náð góðum árangri erlendis. Elísabet Rut Rúnarsdótir, Erna Sóley Gunnarsdóttir og Valdimar Hjalti Erlendsson munu keppa í Kaplakrika um helgina. Elísabet keppir í sleggjukast og sterkasta grein Ernu er kúluvarp. Þær eru báðar í ÍR. Valdimar er í FH og er þekktastur fyrir afrek sín í kringlukasti. Þau hafa öll komist í úrslit á EM unglinga og raðað sér ofarlega á topplistana í Evrópu í sínum aldursflokk. Erna Sóley vann til bronsverðlauna í kúluvarpi á EM U20 síðasta sumar.

Tvær fljótustu í sögunni

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth eru tvær fljótustu íslenskur konurnar frá upphafi. Þær deila Íslandsmetinu í 60 metra hlaupi og eiga tvo bestu tímana í 100 og 200 metrum þar sem aðeins 1/100 úr sekúndu skilur þær að í 100 metrunum. Guðbjörg Jóna keppir í 100 og 200 metra hlaupi um helgina í flokki stúlkna 18-19 ára. Hún á Íslandsmetin í báðum greinum. Tiana Ósk keppir í sömu greinum í flokki stúlkna 20-22 ára.

Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH er ein sú besta á landinu í 400 metra hlaupi og er hún ríkjandi Bikar- og Íslandsmeistari í greininni bæði innanhúss og utanhúss. Hún hefur verið hluti af íslenska landsliðinu síðustu ár og keppt á nokkrum stórmótum unglinga. Um helgina keppir hún í sinni helstu grein sem er 400 metra hlaup ásamt því að keppa í sex öðrum greinum. Það eru 100 og 200 metra hlaup, hástökk, langstökk, kúluvarp og spjótkast.

Um helgina keppa einnig fjölþrautarkonurnar Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA, og Irma Gunnarsdóttir, Breiðbliki. Irma keppir í fjórum greinum þar sem hennar sterkasta grein er langstökk. Glódís Edda keppir í níu greinum, í hlaupum, stökkum og köstum. Irma keppir í flokki stúlkna 20-22 ára og Glódís 16-17 ára. Þær voru báðar hluti af landsliði Íslands á Evrópubikar síðasta sumar þar sem Irma keppti í þrístökki og Glódís í 400 metra grindarhlaupi.

Dagur Andri Einarsson og Óliver Máni Samúelsson keppa báðir í 100 og 200 metra hlaupi. Dagur í flokki 20-22 ára pilta og Óliver í flokki 18-19 ára. Þeir hafa báðir hlaupið 100 metrana á rétt rúmum ellefu sekúndum í sumar en gætu vel farið undir um helgina. Dagur á best 10,87 sekúndur og Óliver 11,06.

Margt fleira ungt og efnilegt íþróttafólk mun keppa í Kaplakrika um helgina. Búast má við skemmtilegri og spennandi keppni í mörgum greinum. Því hvetjum við alla til þess að mæta og fylgjast með um helgina.

Hér má sjá tímaseðil og keppendalista.