MÍ 15-22 ára um helgina

Um helgina fer fram Meistaramót Íslands 15-22 ára, 26.-28. febrúar í Laugardalshöll. Það eru tæpir 200 keppendur frá fjórtan félögum víðs vegar af landinu skráðir til leiks. Það voru ÍR-ingar sem unnu heildarstigakeppnina fyrir ári síðan og stefnir í jafna og spennandi stigakeppni. Það eru 16 keppendur úr landsliðinu skráðir til leiks og búast má við sterkri og spennandi keppni.

Enn er 50 manna hámark á keppnissvæðinu og 50 manna hámark á ytra svæði. Töluverðan fjölda þarf til að keyra frjálsíþróttamót að auki bætast við keppendur og þjálfarar sem gefur lítið svigrúm fyrir áhorfendur. Því verða áhorfendur ekki leyfðir á mótinu.

Breytt hugarfar til bætinga

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, er í frábæru formi og mætir til leiks með breytt hugarfar. Hún ætlar að einbeita sér að bætingar í tæknilegu þáttum hlaupsins í stað þess að horfa á klukkuna og vonar að það skili árangri. Hún á Íslandsmetið í 60 metra hlaupi ásamt Tiönu Ósk Whitworth og í 200 metra hlaupi á hún aldursflokkametið frá flokki 15 ára til 20-22 ára. 

Ætlar hátt á þessu móti

Ármenningurinn Kristján Viggó Sigfinnsson stefnir á HM U20 lágmarki en hann og Selfyssingurinn Eva María Baldursdóttir eru aðeins einum sentimetri frá lágmarkinu í hástökki. Kristjáni hefur gengið vel á síðustu æfingum og ætlar að stökkva hátt á þessu móti. Eva segir að það hafi sjaldan gengið jafn vel á æfingum og núna og stefnir hún á persónulega bætingu innanhúss.

Spennandi langstökkskeppni

Það verður spennandi að fylgjast með langstökkskeppninni í tveimur elstu flokkunum en þær Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, og Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki, stukku nýlega yfir sex metra og tímabilið er bara rétt að byrja. Hildigunnur er að koma sterk inn í tímabilið með frábærar persónulegar bætingar bæði í 60 metrum og langstökki. Birna byrjaði tímabilið einnig af krafti og er búin að slá aldursflokkamet í langstökki og  60 metra grindahlaupi.

Tímaseðil og úrslit mótsins má finna hér.