Metfjöldi á Silfurleikum ÍR í dag

 Frjálsíþróttadeild ÍR hélt í dag sína árlegu Silfurleika ÍR í flokkum 17 ára og yngri í Laugardalshöllinni Mótið er nefnt SILFURLEIKAR til að minnast stórkostlegs afreks ÍR-ingsins Vilhjálms Einarssonar sem vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourn í Ástralíu árið 1956.  Því var vel við hæfi glæsilegur árangur Fannars Inga Rafnssonar frá Þór í Þorlákshöfn  sem stökk 12,64 m í þrístökki í flokki 14 ára pilta og spurning hvort að þar sé kominn arftaki Vilhjálms eins og þulur mótsins hinn reynslumikli Þráinn Hafsteinsson komst að orði við verðlaunaafhendinguna. Þórdís Eva Steinarsdóttir FH átti góðan dag og sigraði í fjölda greina og setti Íslandsmet í 60m grindahlaupi og 600m hlaupi í sínum aldursflokki, 12 ára stúlkur. Reynir Zoega Geirsson Breiðabliki setti Íslandsmet í kúluvarpi 13 ára pilta. Aníta Hinriksdóttir átti enn eitt frábært hlaup í 800m 2:05.94 mín (handtími) sem er alveg við metið hennar 2:05.96 mín (rafmagnstímataka)

Silfurleikar ÍR er opið frjálsíþróttamót sem hefur átt miklum vinsældum að fagna undanfarin ár en keppt er í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum frá 11 ára aldri og upp í 17 ára flokkinn. Hins vegar hafa 10 ára og yngri tekið þátt í hinni sívinsælu ÞRAUTABRAUT en hún gengur út á mismunandi þrautir sem tengjast keppnisgreinum frjálsíþrótta. Þrautirnar reyna á ýmiskonar þætti og hæfileika en markmiðið er að börnin skemmti sér vel og vinni saman sem lið. Keppendur þar voru 280 talsins í yfir 20 liðum en einn liðsstjóri fylgdi hverju þeirra þannig að þar taka foreldrar jafnan þátt í íþróttaiðkun barna sinna en metfjöldi áhorfenda var mættur til að fylgjast með keppninni.

 

Fréttin er af vef ÍR-inga, www.ir.is

FRÍ Author