Um helgina fer Meistaramóts þrenna fram í Kaplakrika, þ.e. MÍ í fjölþrautum, MÍ í 10.000m og MÍ í eldri aldursflokkum. Margir öflugir íþróttamenn eru skráðir til leiks í þraut. Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) og María Helga Högnadóttir (FH) verða meðal keppenda í sjöþraut stúlkna 18-19 ára. Báðar kepptu þær á NM í þraut fyrr í sumar sem fram fór á ÍR vellinum. Thomas Ari Arnarsson (Ármann) keppti einnig á NM í þraut í sumar og keppir í tugþraut pilta 16-17 ára um helgina. Ísold Sævarsdóttir (FH) keppir í sjöþraut stúlkna 16-17 ára, hún bætti aldursflokkametið í sjöþraut á dögunum er hún keppti á EM U18. Einnig varð hún Norðurlandameistari í sínum aldursflokki í sjöþraut í júní síðastliðnum.
Arnar Pétursson (Breiðablik) og Íris Anna Skúladaóttir (FH) verða meðal keppenda í 10.000m hlaupi um helgina en konurnar hlaupa á laugardeginum og karlarnir á sunnudag.
Tímaseðil og keppendalista má finna hér.
MÍ í eldri aldursflokkum verður einnig þessa helgi en um 40 keppendur eru skráðir til leiks og keppt er í öllum greinum í aldursflokkum 30-34 ára til 80-84 ára.
Tímaseðil og keppendalista má finna hér.
Nú styttist í heimsmeistaramótið í eldri aldursflokkum, það fer fram 13.-25. ágúst í Gautaborg í Svíþjóð. Níu Íslendingar taka þátt en það eru þau Berglind Rós Bjarnadóttir, Bergur Hallgrímsson, E. Kristján Gissurarson, Fríða Rún Þórðardóttir, Hafsteinn Óskarsson, Jón Bjarni Bragason, Pétur Sturla Bjarnason, Skúli Guðbjarnarson og Sverrir Ólafsson.