Meistaramót unglinga – ÍR ingar íslandsmeistarar félagsliða.

Lið ÍR sigraði heildarstigakeppni félaga á Meistaramóti unglinga 15-22 ára sem fram fór í Laugardalshöllinni um helgina og lauk í dag. ÍR hlaut alls 354 stig, FH varð í öðru sæti með 198 stig og Fjölnir í þriðja sæti með 124 stig. ÍR ingar sigruðu stigakeppnina í þremur aldursflokkum eða í meyja, drengja og ungkvennaflokki.
Breiðablik vann í flokki sveina, FH í flokki stúlkna og Fjölnir í flokki ungkarla 19-22 ára.
 
Eitt íslandsmet féll á hvorum keppnisdegi, Birna Varðardóttir FH bætti eigið meyjamet í 3000m hlaupi í gær þegar hún hljóp á 11:03,36 mín. Þá bætti stúlknasveit FH metið í 4x200m boðhlaupi um eina sek., en þær sigruðu á 1:49,05 mín. Sveitina skipuðu þær Dóra Hlín Loftsdóttir, Heiðdís Arna Lúðvíksdóttir, Sara Úlfarsdóttir og Heiður Ósk Eggertsdóttir.
 
* Helga Margrét Þorsteinsdóttir var sigursælust á mótinu um helgina, en hún vann allar sex keppnisgreinar sem hún tók þátt í í stúlknaflokki eða 60m, 60m gr., 200m, langstökk, hástökk og kúluvarp.
* Hafdís Sigurðardóttir HSÞ vann fjórar greinar í flokki unkvenna, 60m, 200m, 400m og langstökk.
* Bjarni Malmquist Jónsson Fjölni vann þrjár greinar í flokki ungkarla, 60m gr., langstökk og þrístökk.
* Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölni vann þrjár greinar í flokki ungkvenna, 800m, 1500m og 3000m.
* Ólafur Konráð Albertsson ÍR vann þrjár greinar í ungkarlaflokki, 800m, 1500m og 3000m.
* Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki vann þrjár greinar í sveinaflokki, 200m, kúluvarp og stangarstökk.
 
Heildarúrslit frá mótinum um helgina, bæði í einstökum greinum og í stigakeppni milli félaga eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.
 
Myndin er af nýkrýndum Íslandsmeisturum félagsliða 15-22 ára innanhúss 2009, liði ÍR. (Mynd: Felix Sigurðsson).

FRÍ Author