Meistaramót Íslands hefst á morgun

Penni

5

min lestur

Deila

Meistaramót Íslands hefst á morgun

Um helgina, 28.-30. júlí fer fram stærsti frjálsíþróttaviðburður sumarsins á ÍR vellinum í Skógarseli.

97. Meistaramót Íslands er hápunktur sumarsins hér á landi og er allt okkar besta frjálsíþróttafólk skráð til leiks. Hægt er að fylgjast með úrslitum í rauntíma í mótaforritinu ÞÓR en við hvetjum alla til þess að mæta á svæðið. Rafræna leikskrá má finna hér.

Föstudagur

Mikið af undankeppnum fara fram á föstudeginum en undanúrslit í 100m hlaupi karla og kvenna eru þar á meðal. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) keppir í undanúrslitum í 100m hlaupi og er hún búin að hlaupa hraðast 11,70 sek. í ár. Mótsmetið í greininni á Sunna Gestsdóttir og er það 11,63 sek. frá árinu 2004. Guðbjörg á bæði Íslandsmetið í 100m, 11,56 sek. og 200m 23,45 sek. en hún er einnig skráð til keppni í 200m sem fara fram á sunnudag. Mótsmetið á hún sjálf og er það 23,89 sek. frá 2018.

Undanúrslitin í 100m kvenna eru kl. 17:30 á föstudag og úrslitin kl. 15:30 á laugardag. Undanúrslitin í 200m kvenna eru kl. 14:00 og úrslitin kl. 16:10 á sunnudag.

Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) hefur jafnað Íslandsmet karla í 100m hlaupi í tvígang á tímabilinu og er Íslandsmet hans og Ara Braga Kárasonar sem er 10,51 sek. í stórhættu um helgina. Mótsmetið á Kolbeinn og er það 10,61 sek. Kolbeinn er einnig skráður í 400m hlaup karla og er hann búinn að hlaupa hraðast 47,87 sek. í ár. Mótsmetið á Trausti Stefánsson og er það 48,31 sek.

Undanúrslitin í 100m karla eru klukkan 18:00 og úrslitin klukkan 15:10 á laugardag. 400m hlaupið hefst klukkan 15:50 á laugardag.

Undankeppni í langstökki fer fram á morgun, föstudag þar sem það þarf að stökkva 5,20m til þess að komast beint í úrslit. Tólf efstu sætin í keppninni komast síðan áfram í úrslitakeppnina en það er Irma Gunnarsdóttir (FH) sem hefur stokkið áberandi lengst í ár. Irma hefur átt stórkostlegt tímabil í bæði lang- og þrístökki, bætti meðal annars Íslandsmetið í þrístökki í byrjun tímabils. Hún hefur stokkið lengst 6,40m í langstökki sem er annað lengsta stökk íslenskrar konu frá upphafi og sigraði hún í greininni á síðasta ári. Móts- og Íslandsmetið á Hafdís Sigurðardóttir (UFA) en hún er einnig skráð til keppni. Mótsmetið hennar er 6,39m frá 2015. Hafdís kom sterk til baka á brautina og hefur stokkið lengst 6,18m í ár. Íslandsmet Irmu í þrístökki er 13,40m og á hún einnig mótsmetið, 12,89m, sett fyrir tveimur árum.

Undankeppnin í langstökki kvenna hefst klukkan 18:10 á föstudag og úrslitin kl. 14:00 á laugardag. Þrístökk kvenna hefst klukkan 14:40 á sunnudag.

Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) keppir í þremur greinum um helgina. Hún byrjar á morgun, föstudag á 3000m hindrun en hún bætti eigið Íslandsmet í greininni á Evrópubikar í síðasta mánuði og hljóp þá á tímanum 10:08,85 mín. Mótsmetið á Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) og er það 11:57,16. Hún er einnig skráð til keppni í 1500m og 5000m hlaupi. Andrea bætti Íslandsmetið í 5000m innanhúss í vetur og er svo búin að hlaupa hraðast 16:32,42 mín. utanhúss í ár sem er hennar besti árangur.

3000m hindrunarhlaupið er kl. 19:20 á föstudag, 1500m kvenna kl. 14:55, á laugardag og 5000m kvenna kl 14:50 á sunnudag.

Spjótkastið í ár verður blönduð keppni þar sem konurnar og karlarnir kasta á sama tíma. Sigurvegarinn í fyrra, Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR), er þar á meðal keppenda en hann er búinn að kasta 78,56m í ár en hann á best 79,57m sem hann kastaði á Meistaramótinu fyrir tveimur árum. Örn Davíðsson (Selfoss) er einnig á meðal keppenda en hann er búinn að kasta lengst 71,69m í ár en hans besti árangur er 75,96m. Mótsmetið er 80,66 sem Guðmundur Sverrisson setti árið 2013.

Arndís Diljá Óskarsdóttir (FH) verður á meðal keppenda í kvennakeppninni en hún er tvöfaldur Íslandsmeistari í greininni. Arndís er komin með lágmark á EM U20 ára sem fer fram í Jerúsalem í byrjun ágúst. Arndís er búin að kasta lengst 48,57m í ár sem er hennar besti árangur.

Spjótkastkeppnin hefst kl. 18:00 föstudag.

Aníta Hinriksdóttir (FH) er mætt til landsins og hleypur 800m um helgina. Aníta sigraði í 800m í fyrra og á hún bæði Íslands- og mótsmetið í greininni. Mótsmetið er 2:05,38 mín. Aníta er búin að hlaupa hraðast 2:03,33 í ár. Aníta er einnig skráð til leiks í 1500m hlaupi og á hún einnig mótsmetið í þeirri grein, 4:27,93 mín.

800m kvenna hefst kl. 18:40 á föstudag og 1500m kvenna kl. 14:55 á laugardag.

Laugardagur

Líkt og í spjótkastinu verður keppnin í sleggjukasti blönduð. Tífaldi Íslandsmeistarinn Hilmar Örn Jónsson (FH) sem á einnig Íslands- og mótsmetið mætir til keppni. Hilmar er í góðri stöðu á heimslista fyrir Heimsmeistaramótið sem fer fram í Búdapest í miðjan ágúst og er hann búinn að kasta lengst 74,77m í ár. Mótsmetið setti hann á síðasta ári og er það 75,20m.

Kvennamegin höfum við Guðrúnu Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) sem er búin að eiga stórkostlegt timabil. Hún er búin að kasta lengst 65,42m í ár sem er annað lengsta kast íslenskrar konu frá upphafi. Fyrrum methafinn í greininni Vigdís Jónsdóttir (ÍR) verður einnig á meðal keppenda en hún hefur sjö sinnum orðið Íslandsmeistari í greininni. Vigdís er búin að kasta lengst 63,63m sem er hennar persónulegi besti árangur. Íslandsmethafinn í greininni, Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR), þurfti að enda tímabil sitt snemma í ár vegna meiðsla og mætir því ekki til leiks. Mótmetið á Elísabet og er það 62,30m.

Sleggjukastið hefst klukkan 14:00 á laugardag.

Hlynur Andrésson (ÍR) keppir í 1500m hlaupi en hann á þrjá Íslandsmeistaratitla í greininni. Hlynur á best 3:45,97 mín. í greininni og á hann fjögur Íslandsmet; í hálfu og heilu maraþoni, 10.000m hlaupi á braut og 10km götuhlaupi. Mótsmetið í 1500m er 3:54,66 mín sem Björn Margeirsson setti árið 1999.

Keppni í 1500m karla hefst klukkan 14:45 á laugardag.

Daníel Ingi Egilsson (FH) er til alls líklegur um helgina en hann tekur stökk tvennuna, langstökk og þrístökk. Daníel er búinn að eiga frábært tímabil og nálgast meðal annars met Jóns Arnas Magnússonar í langstökki. Daníel er búinn að stökkva lengst 7,92m í ár en Íslandsmet Jóns Arnars er 8,00m frá 1994. Jón Arnar á einnig mótsmetið og er það 7,96 m frá 1997. Daníel bætti Íslandsmetið innanhúss í þrístökki og er hann búinn að stökkva lengst 15,98m í ár. Mótsmetið á Sigtryggur Aðalbjörnsson frá árinu 2000 og er það 14,84m.

Langstökk karla hefst kl. 15:20 á laugardag og þrístökk karla kl. 15:40 á sunnudag.

Sunnudagur

Í kúluvarpi kvenna verður Íslandsmet- og mótsmethafinn, Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR), á meðal keppenda en hún er fjórfaldur meistari í greininni. Erna er búin að kasta lengst 17,39m í ár utanhúss sem er jafnfram Íslandsmetið í greininni, mótsmetið hennar er 16,54m.

Kúluvarp kvenna hefst klukkan 13:40 á sunnudag.

Í kringlukasti karla keppir Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason (ÍR) og er hann, líkt og Hilmar, í góðri stöðu á heimslista fyrir HM. Guðni er búinn að kasta 64,80m og er Íslandsmet hans 69,35m. Það er Vésteinn Hafsteinsson sem á mótsmetið og er það 62,34m. Mímir Sigurðsson (FH) er ennig á meðal keppenda og er hann búinn að kasta lengst 56,68m í ár.

Í kvenna kringlunni er það Hera Christensen (FH) sem hefur kastað lengst í ár en hún er einnig á leið á EM U20 í Jerúsalem eins og Arndís. Hera hefur kastað lengst 49,73m en bestan árangur í keppninni á Kristín Karlsdóttir (FH). Hún á best 53,53m og er búin að kasta lengst 49,50 í ár. Mótsmetið í kringlukasti kvenna er 49,85m sem Thelma Lind Kristjánsdóttir setti árið 2018.

Kringlukast karla hefst kl 13:40 og kvenna kl. 15:10 á sunnudag.

Margfaldi Íslandsmethafinn, Baldvin Þór Magnússon (UFA) keppir í 5000m hlaupi. Baldvin er búinn að hlaupa hraðast 13:42,27 mín. í ár en það er Hlynur Andrésson sem á mótsmetið og er það 14:13,92 mín. frá því á síðasta ári. Íslandsmet Baldvins í greininni er 13:32,47 mín.

5000m karla hefst klukkan 14:30 á sunnudag.

Það verður spennandi keppni í hástökki kvenna í ár. Birta María Haraldsóttir (FH) átti glæsilegt mót í Osló á NM U20 þar sem hún bætti sig um sjö sentímetra og fór 1,80m og náði um leið lágmarki á EM U20. Eva María Baldursdóttir (Selfoss) er búin að stökkva hæst 1,77m í ár en hún á best 1,81m. Helga Þóra Sigurjónsdóttir (Fjölnir) er sömuleiðis búin að bæta sig töluvert á tímabilinu og er búin að fara 1,77m. Mótsmetið er 1,80 sem Þórdís Lilja Gísladóttir setti árið 1994.

Hástökk kvenna er klukkan 13:30 á sunnudag.

Penni

5

min lestur

Deila

Meistaramót Íslands hefst á morgun

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Dæmi um leit