Meistaramót Íslands fer fram um helgina

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fer fram helgina 24.-25. febrúar nk. í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Á mótinu keppir allt fremsta frjálsíþróttafólk landsins og má búast við hörkukeppni.

  • 31 spretthlauparar eru skráðir til leiks í 60 m hlaupi kvenna og 30 í karlaflokki. Í kvennaflokki á Andrea Torfadóttir FH besta tímann en hennar persónulega met er 7,74 sek frá því á MÍ 15-22 ára um síðustu helgi. Í karlaflokki á Ari Bragi Kárason FH besta tímann eða 6,93 sek frá því á RIG í fyrra.
  • Langstökkvarinn Kristins Torfason FH er skráður til leiks og verður spennandi að sjá hvaða árangri hann nær um helgina en hann hefur verið að stökkva gríðarlega vel að undanförnu. Kristinn á best 7,77 m en hann stökk 7,66 m á RIG í byrjun febrúar og er það hans besti árangur á tímabilinu.
  • 13 keppendur eru skráðir til leiks í 400 m hlaupi karla og eru 12 skráðar í kvennaflokki. Búast má við harðri baráttu í báðum flokkum. Í karlaflokki á Kormákur Ari Hafliðason FH besta tímann en hans besti árangur er 48,78 sekúndur frá því á Bislet leikunum í Osló á síðasta ári.
  • Í kvennaflokki er hlaupadrottningin Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH skráð til leiks en hún varð Norðurlandameistari í 400 m hlaupi fyrr í þessum mánuði. Þar að auki er Þórdís Eva Steinsdóttir FH á meðal keppenda en hún á næstbesta tímann eða 54,80 sekúndur. Þær munu einnig báðar keppa í 200 m hlaupi og eiga þar hröðustu tíma þeirra keppenda sem skráðir eru.
  • Um spennandi keppni verður að ræða í hástökki karla og kvenna. Í karlaflokki á Kristján Viggó Sigfinnsson Ármanni besta árangurinn eða 2,01 m sem er Íslandsmet í hans aldursflokki, en hann er aðeins 15 ára gamall. Í kvennaflokki á Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir UMSS besta árangur keppenda eða 1,76 m frá því á RIG fyrr í þessum mánuði.
  • Hulda Þorsteinsdóttir ÍR er á meðal keppenda í stangarstökki kvenna. Hulda hafnaði í 3. sæti á Norðurlandameistaramótinu á dögunum er hún fór yfir 4,24 m. Verður spennandi að sjá hvaða árangri hún nær um helgina en hún er í hörkuformi.
  • Thelma Lind Kristjánsdóttir ÍR keppir í kúluvarpi kvenna en hún hefur verið að bæta sig jafnt og þétt á tímabilinu og á hún best 14,95 m. Erna Sóley Gunnarsdóttir ÍR hefur einnig verið að kasta mjög vel að undanförnu en hún á best 13,90 m.

Tímaseðil mótsins má sjá hér.