Meistaramót Íslands fer fram um helgina

Um helgina fer fram Meistaramót Íslands á Sauðárkróki. Þar mun fremsta frjálsíþróttafólk landsins koma saman og berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

Mótið hefst á forkeppni í langstökki. Þar eru 30 keppendur í kvennaflokki og 24 keppendur í karlaflokki skráðir til leiks. Gaman verður að fylgjast með Hafdísi Sigurðardóttur sem er að koma til baka eftir barnsburð. Hafdís er Íslandsmethafi í langstökki og hefur verið að stökka vel yfir 6 metra í sumar. Einnig verður gaman að sjá Birnu Kristínu Kristjánsdóttur sem er nýkomin heim af EM U18 sem og Irmu Gunnarsdóttur, Maríu Rún Gunnlaugsdóttur og Guðrúnu Heiðu Bjarnadóttur. Búast má við mikilli samkeppni um að komast á pall.

Í hástökki karla er hinn ungi og efnilegi Kristján Viggó Sigfinnson úr Ármanni meðal keppenda. Hann stökk yfir 2 metra í vetur en á enn eftir að gera það utanhúss. Tekst honum það núna um helgina?

Í kúluvarpi kvenna sigraði Ólympíufarinn og spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir í fyrra. Hún mætir aftur til leiks til að reyna verja titilinn en Thelma Lind Kristjánsdóttir og Erna Sóley Gunnarsdóttir munu eflaust veita henni mikla samkeppni.

Í 100 metra hlaupi karla eru Kolbeinn Höður Gunnarsson og Jóhann Björn Sigurbjörnsson líklegastir til sigurs. Kolbeinn Höður varð Íslandsmeistari í fyrra en Jóhann Björn hefur komið sterkur til baka í sumar eftir erfið meiðsli síðustu ár. Sömu spennu má búast við í 200 metra hlaupinu þar sem þeir eru báðir einnig skráðir til keppni.

Í spjótkasti karla verður gaman að fylgjast með Sindra Hrafn Guðmundssyni. Hann bætti sig nýlega á sterku spjótkastmóti í Þýskalandi um daginn þegar hann kastaði 80,91 metra. Mun hann aftur ná að brjóta 80 metra múrinn um helgina og Íslandsmeistartitillinn verða hans eða getur Dagbjartur Daði Jónsson stolið titlinum? Dagbjartur er í góðu formi þessa dagana og bætti sig einnig á sama móti og Sindri þegar hann kastaði 76,19 metra.

Í 100 metra hlaupi kvenna mætir til keppni nýkrýndur Evrópumeistari í flokki stúlkna 16-17 ára, hún Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Tiana Ósk Whitworth sem keppti í vikunni á HM U20 er einnig meðal keppenda. Þær æfa saman, slá Íslandsmet saman og munu vonandi einn daginn sigra heiminn saman. Þær eiga báðar best 11,68 sek sem er jafnframt Íslandsmet í flokki stúlkna 18-19 ára og 20-22 ára. Fróðlegt verður að sjá hvort Íslandsmet kvenna muni falla um helgina. Það er 11,63 sekúndur sem hún Sunna Gestsdóttir setti árið 2004. Guðbjörg og Tiana munu einnig báðar keppa í 200 metra hlaupi.

Í 4×100 metra boðhlaupi karla sigraði í fyrra sveit FH á nýju Íslandsmeti félagsliða og í kvennaflokki sigraði ÍR einnig á nýju Íslandsmeti félagsliða. Búast má við sterkum sveitum frá þeim í ár og fróðlegt verður að sjá hvort met þeirra frá því í fyrra muni falla.

Í sleggjukasti karla og kvenna eru Hilmar Örn Jónsson og Vigdís Jónsdóttir sigurstranglegust. Einnig verður gaman að fylgjast með Elísabetu Rut Rúnarsdóttur sem er nýkomin heim af EM U18 þar sem hún stóð sig frábærlega.

Fellur met Guðrúnar Ingólfsdóttur í kringlukasti kvenna frá 1982 en metið er 53,86 metrar. Thelma Lind Kristjánsdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir og Kristín Karlsdóttir gætu allar bætt sig og slegið Íslandsmetið í leiðinni.

 

Leikskrá mótsins má nálgast hér fyrir neðan.

LeikskraMI_2018Uti.