María ver titilinn sinn

Um helgina fer fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum í Laugardalshöll og lauk fimmtarþraut kvenna í dag. Það voru tvær konur skráðar til leiks en það voru FH-ingarnir María Rún Gunnlaugsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir og var það María sem bar sigur úr býtum.

María hlaut 4169 stig fyrir sína þraut sem er persónuleg bæting hjá henni. Hún sigraði í fjórum af fimm greinum en Þórdís vann 800 metrana eftir skemmtilega keppni og góða samvinnu hjá stelpunum. María bætti sig í einni grein og var við sitt besta í hinum greinunum. Þórdís hlaut 3715 stig fyrir sína þraut og bætti sinn persónulega árangur í tveimur af fimm greinum.

GreinÁrangurStig
60m grind8,72 sek969
Hástökk1,72m879
Kúluvarp12,88m719
Langstökk5,90m819
800m2:22,99783
Árangur Maríu Rúnar í einstaka greinum

 

Tvö aldursflokkamet féllu í dag en það voru Blikarnir Birna Kristín Kristjánsdóttir og Júlía Kristín Jóhannesdóttir sem settu glæsileg met í grindahlaupi en þær sigruðu báðar flokkinn sinn í fimmtarþraut stúlkna. Birna bætti sitt eigið aldursflokkamet í grindahlaupi um tvö brot í 18-19 ára flokki og hlaut 3114 stig fyrir sína þraut en hún kláraði ekki 800 metra hlaupið vegna meiðsla. Júlía stórbætti aldursflokkametið í grindahlaupi í 16-17 ára flokki og hljóp á 8,57 sekúndur en gamla metið var 8,74 sekúndur. Metið var sett árið 2002 og var í eigu Sigurbjargar Ólafsdóttur.

Karlaþrautin heldur áfram á morgun og mun þá koma í ljós hver verður Íslandsmeistari í sjöþraut karla. Það er Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason sem leiðir þrautina með 2980 stig eftir glæsilegan fyrri dag. Það eru svo Benjamín Jóhann Johnsen og Árni Björn Höskuldsson sem fylgja þar á eftir en Gunnar Eyjólfsson hóf ekki keppni vegna meiðsla. 

Liðsfélagi Gunnars, Birnir Vagn Finnsson þurfti að ljúka keppni í flokki 18-19ára eftir fyrstu grein vegna meiðsla og er það Dagur Fannar Einarsson sem leiðir pilta þrautina í þeim aldursflokki.

Heildarúrslit mótsins má finna hér.