María Rún með brons á Madeira

Keppni á Evrópubikar í fjölþrautum sem fram fer á Madeira er lokið. Sex íslenskir keppendur kepptu á mótinu og voru tvö þeirra að bæta sinn besta árangur.

María Rún Gunnlaugsdóttir náði bestum árangri íslensku keppendanna og fékk bronsverðlaun á mótinu. Hún var einnig að bæta sig og fékk 5562 stig fyrir sjöþrautina. Fyrir átti hún best 5488 stig frá árinu 2017. María Rún er fjórða besta sjöþrauta kona Íslands frá upphafi og með árangrinum var hún að færast nær Sveinbjörgu Zophaníasdóttur sem er þriðja og á best 5723 stig.

Benjamín Jóhann Johnsen var einnig að bæta sig og endaði í fimmta sæti í tugþrautinni með 7146 stig. Benjamín fór í fyrsta skipti yfir sjöþúsund stig fyrr í sumar þegar hann fékk 7047 stig út í Svíþjóð. Einungis fjórtán íslenskir karlar hafa farið yfir sjöþúsund stig og með árangri Benjamíns um helgina var hann að komast upp í tíunda sæti íslenska afrekalistans.

Glódís Edda Þuríðardóttir kláraði um helgina sína fyrstu sjöþraut með kvennaáhöld en hún er aðeins sextán ára gömul. Glódís fékk 4777 stig og endaði í þrettánda sæti. Ísak Óli Traustason varð einnig þrettándi með 6695 stig sem er aðeins 37 stigum frá hans bestu þraut.

Andri Fannar Gíslason hætti í þrautinni eftir að hafa fellt byrjunarhæð í stangarstökki á seinni degi og Sindri Magnússon þurfti að hætta eftir að hafa meiðst í hástökkinu á fyrri degi.

Öll úrslit mótsins má sjá hér.

Íslenski hópurinn eftir keppni á Evrópubikar í fjölþrautum á Madeira