María Rún Íslandsmeistari í fimmtarþraut

Um helgina fer fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum í Laugardalshöllinni og lauk fimmtarþraut kvenna í dag. María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, hlaut flest stig og varð Íslandsmeistari, í öðru sæti varð Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki, og í þriðja sæti varð Ragna Vigdís Vésteinsdóttir, UMSS.

María Rún fékk 3965 stig og er það hennar næst besta þraut frá upphafi en hún á best 4094 stig frá því í fyrra. María Rún sigraði í öllum greinum dagsins nema í langstökki þar sem hún varð í öðru sæti.

Árangur Maríu Rúnar í einstaka greinum:
• 60m grind: 8,92s
• Hástökk: 1,69m
• Kúluvarp: 12,34m
• Langstökk: 5,63m
• 800m: 2:23,72

María Rún hefur verið ein fremsta fjölþrautarkona Íslands síðustu árin og er í öðru sæti íslenska afrekalistans í fimmtarþraut. Hún byrjar árið sterkt með góðri þraut í dag þrátt fyrir að hafa verið að glíma við meiðsli í vetur.

Birna Kristín sem varð í öðru sæti hlaut 3550 stig. Birna var að keppa í sinni fyrstu fimmtarþraut en hún er þekktust sem langstökkvari þar sem hún á stúlknamet 16-17 ára utanhúss. Birna Kristín er sterk á mörgum greinum og gæti átt framtíð fyrir sér sem fjölþrautarkona. Í þrautinni í dag sigraði hún í langstökki og varð önnur í 60 metra grindarhlaupi og hástökki. Hún bætti sinn besta árangur í grindarhlaupinu og í kúluvarpi.

Árangur Birnu Kristínar í einstaka greinum:
• 60m grind: 8,99s
• Hástökk: 1,66m
• Kúluvarp: 10,35m
• Langstökk: 5,93m
• 800m: 2:51,09

Hér má sjá öll úrslit dagsins