María fjórða eftir fyrri keppnisdag

Fyrri keppnisdegi á Evrópubikar í fjölþrautum sem fram fer á Madeira er lokið. Efst íslensku keppendanna er María Rún Gunnlaugsdóttir sem er í fjórða sæti eftir fjórar greinar af sjö. María er með 3328 stig, aðeins 44 stigum frá verðlaunasæti. María lenti í fimmta sæti í 100 metra grindarhlaupi, hástökki og 200 metra hlaupi. Í hástökki stökk hún 1,75 metra sem er hennar besti árangur utanhúss en innanhúss hefur hún stokkið 1,76 metra. Í 200 metra hlaupi hljóp hún á 25,51 sekúndu sem er einnig persónulegt met. María hefur náð betri árangri í öllum greinum dagsins en þegar hún átti sína bestu þraut. Sá árangur er frá árinu 2017 og er 5488 stig.

Næst efstur íslensku keppendanna er Benjamín Jóhann Johnsen. Hann er í sjöunda sæti með 3667 stig þegar tugþrautin er hálfnuð. Bestum árangri náði hann í hástökkinu þar sem sigraði með því að stökkva yfir 1,98 metra. Það er aðeins einum sentimetra frá hans besta árangri utanhúss og tveimur sentimetrum frá hans besta innanhúss. Benjamín fór í fyrsta skipti yfir sjöþúsund stig í Svíþjóð í byrjun júní. Eftir fyrri keppnisdag þá var hann með 3449 stig, nú er hann hinsvegar með 3667 stig og því stefnir allt í góða bætingu.

Ísak Óli Traustason er eins og stendur ellefti með 3586 stig. Hann á best 6723 stig og því gæti Ísak Óli bætt sinn besta árangur í þraut ef vel gengur á morgun. Í dag hefur hann náð betri árangri í 100 metra hlaupi, kúluvarpi og 400 metra hlaupi en árangur hans í hans bestu þraut.

Andri Fannar Gíslason og Glódís Edda Þuríðardóttir eru bæði í nítjánda sæti. Andri Fannar er með 3291 stig og Glódís Edda með 2749 stig. Sindri Magnússon þurfti að hætta þátttöku eftir fjórar greinar.

Hér má sjá öll úrslit fyrri keppnisdags.