Magnús Jakobsson fyrrverandi formaður FRÍ sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Magnús Jakobsson fyrrverandi formaður FRÍ sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu

Það var sérstakt gleðiefni að sjá Magnús Jakobsson hljóta verðskuldaðan heiður er hann var sæmdur riddarakrossi 17. júní síðastliðinn. Í tilefni af því, örfá orð um Magnús.

Magnús keppti í frjálsíþróttum fyrir uppeldisfélög sín, Ungmennafélag Reykdæla og UMSB og síðar UMSK með ágætum árangri. Þó Magnús hafi náð góðum árangri á keppnisvellinum þá er það utan hans sem stærstu afrekin hafa unnist. Fyrstu skrefin í félagsmálum steig Magnús í íþróttanefnd Ungmennafélags Reykdæla árið 1953. Félagsmálaferillinn spannar því rétt um 70 ár! Á þessum langa tíma hefur hann starfað af ósérhlífni á mörgum vígstöðvum s.s. innan ungmennafélaga sinna í Borgarfirði og Kópavogi sem og innan FRÍ. Óhætt er að segja að stór hluti frítíma Magnúsar á þessum langa tíma hafi farið með einum eða öðrum hætti í störf í þágu æsku landsins. Alltaf boðinn og búinn, fyrstur á staðinn og síðastur heim.

Magnús var formaður FRÍ á árunum 1989 til 1993 eftir að hafa setið í stjórn sambandsins frá 1968, hann gegndi formennsku í fjölmörgum nefndum á vegum FRÍ og var m.a. fyrsti formaður landsliðsnefndar, formaður skráninganefndar til margra ára og laganefndar, svo dæmi séu tekin. Enn er Magnús að, nú á níræðisaldri, í dag er hann í forystu uppstillingarnefndar FRÍ, situr í orðunefnd, hefur sinnt söguritun, og starfað í framkvæmdanefnd RIG, Reykjavíkurleikanna í frjálsum.

Magnús Jakobsson hefur sinnt ótal verkefnum á sviði íþróttamála, hvort sem er undirbúningur og framkvæmd móta, rekstur og stjórnun félaga eða deilda, útgáfa blaða eða rita eða einfaldlega að veita upplýsingar sem viskubrunnur og reynslubolti sem hann er. Vinnuframlag sitt hefur Magnús haft einstakt lag á að margfalda með því að virkja fleiri til verka, það segir enginn nei ef Magnús hringir! 

Magnús hefur á ferli sínum verið sæmdur öllum þeim heiðursmerkjum sem íþróttahreyfingin hefur yfir að ráða svo sem með meiru heiðurskross ÍSÍ 2010, gullmerki UMFÍ árið 2001, heiðurskross FRÍ árið 1999, silfurmerki UMSK árið 2004 og gullmerki UMSK árið 2011. 
Magnús var heiðraður sérstaklega af Kópavogsbæ árið 2009 fyrir framúrskarandi og óeigingjarnt starf að æskulýðsmálum í bænum til margra ára og árið 2012 var hann nefndur Eldhugi Kópavogs af Rótarýklúbbi Kópavogs. Árið 2015 varð Magnús fyrstur Íslendinga til að hljóta European Athletics Member Federation verðlaunin fyrir störf þín í þágu íþróttarinnar og nú hefur sömuleiðis sjálfur forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson sæmt Magnús riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. 

Frjálsíþróttasamband Íslands þakkar heiðursmanninum Magnúsi Jakobssyni fyrir sitt óeigingjarna framlag til áratuga sem eflt hefur íþróttina okkar svo um munar!

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Magnús Jakobsson fyrrverandi formaður FRÍ sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit