Lið ÍR fagnaði afmæli með sigri í Bikarkeppni FRÍ

Bikarkeppni FRÍ fór fram laugardaginn 11. mars, á stofndegi Íþróttafélags Reykjavíkur, ÍR. ÍR-ingar nýttu daginn vel því A-lið þeirra sigraði í stigakeppni félaga auk þess að sigra bæði liðakeppni karla og kvenna.

Alls tóku 7 lið þátt en í Bikarkeppni má aðeins einn keppandi keppa í hverri grein fyrir hvert lið. Liðin safna svo stigum eftir því í hvaða sæti þeirra keppandi lendir í. Í ár var A-lið ÍR með flest stig í heildarstigakeppni með 98 stig. Í öðru sæti var lið FH með 83 stig og Breiðablik í því þriðja með 67 stig.

Stigakeppni karla sigraði A-lið ÍR með 47 stig, aðeins einu stigi meira en lið FH. Lið Ármanns lenti í þriðja sæti með 35,5 stig.

Í kvennakeppnninni vann ÍR með yfirburðum eða alls með 51 stig. Hörð barátta var um 2-5. sæti, þar sem FH var í öðru sæti með 37 stig og Breiðablik í þriðja með 35 stig.

Góður árangur náðist einnig í einstökum greinum og var góð keppni.

Í karlaflokki má nefna að Ívar Kristinn Jasonarson var aðeins sjónarmun á undan Ara Braga Kárasyni í 60m spretthlaupi. Báðir voru þeir á tímanum 7,00 og bætti Ívar sig um 4/100 úr sekúndu. Hinvegar varð Ívar annar í 400m hlaupi þegar hann kom aðeins 1/100 úr sek á eftir Trausta Stefánssyni, sem kom í mark á tímanum 48,46s.

Margir bættu sig í 1500m hlaupi karla og kom Kristinn Þór Kristinsson fyrstur í mark á nýju mótsmeti, 3:56,97. Þetta var fyrsta hlaup Kristins í vetur vegna meiðsla, óhætt er að segja að hann sé að koma sterkur til baka. Hinn efnilegi Guðmundur Karl Úlfarsson sigraði í stangarstökki þegar hann bætti sig og fór yfir 4.75. Guðmundur er aðeins 19 ára og hefur bætt sig um alls 55 cm í vetur. Að lokum kom boðhlaupssveit FH í mark á nýju Íslandsmeti í 4×200 þegar þeir sigruðu hlaupi á tímanum 1:27,94. Sveitina skipuðu þeir Trausti Stefánsson, Kormákur Ari Hafliðason, Dagur Andri Einars og Ari Bragi Kárason.

Í kvennaflokki var einnig góður árangur og má þar nefna að Agnes Erlingsdóttir stórbætti sig í 1500 m hlaupi þegar hún kom í mark á nýju mótsmeti á tímanum 4:40,3. Hörð keppni var í hástökki kvenna en María Rún Gunnlaugsdóttir fór með sigur úr bítum eftir að hafa stokkið yfir 172 cm. Kristín Lív Svabo Jónsdóttir var önnur með stökki yfir 169 cm og setti þar nýtt persónulegt met. Hin 14 ára Eva María Baldursdóttir bætti sig einnig og stökk yfir 163cm.

Einnig var hart barist um sigurinn í þrístökki og kúluvarpi kvenna. Í þrístökki var aðeins 31cm munur á 1. og 4. sætinu en Helga Margrét Haraldsdóttir sigraði að lokum. Í kúlunni munaði einungis 34 cm á 1. og 3. sætinu en þar sigraði hin efnilega Erna Sóley Gunnarsdóttir með kasti upp á 13,35.

Sveit ÍR setti Íslandsmet í 4x200m hlaupi þegar þær komu í mark á tímanum 1:38,45. Sveitna skipuðu þær Tiana Ósk Whitworth, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir og Hrafnhild Eir R Hermóðsdóttir.

Keppendur voru á öllum aldri og var yngsti keppandinn Úlfheiður Linnet, aðeins 13 ára gömul og setti hún stúlknamet í 13 ára flokki í 1500 metra hlaupi. Elsti keppandin var Ólafur Guðmundsson sem verður 48 ára á árinu. Ólafur keppti í 60m grindarhlaupi.

Heildar úrslit mótsins má finna á úrslitavefnum Þór, hér.

 

Mynd að ofan: (Af síðu ÍR) Lið ÍR Bikarkeppni FRÍ 2017