Kristján Viggó að bæta 23 ára gamalt met

Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni bætti í dag 23 ára gamalt piltamet 16-17 ára í hástökki þegar hann stökk yfir 2,13 metra. Fyrra metið var 2,12 metrar og setti Einar Karl Hjartarson það árið 1997. Utanhúss er piltametið einnig 2,13 metrar en það eiga Einar Karl og Kristján Viggó saman. Kristján jafnaði það síðastliðið sumar þegar hann varð Norðurlandameistari 19 ára og yngri í greininni. Það met hafði Einar Karl átt einn frá árinu 1997.

Í 200 metra hlaupi jafnaði ÍR-ingurinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir eigið met í flokki stúlkna 18-19 og 20-22 ára. Hún kom í mark á tímanum 24,05 sekúndum en hún hljóp á sama tíma í janúar 2019. Aðeins ein íslensk kona hefur hlaupið vegalengdina undir 24 sekúndum innanhúss en það er Íslandsmethafinn í greininni, Silja Úlfarsdóttir. Íslandsmet hennar er 23,79 sekúndur en stúlknamet Guðbjargar er næst besti árangur frá upphafi.