Kolbeinn Höður með Íslandsmet

Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp í gær 200m á nýju Íslandsmeti karla og í aldursflokki 22 ára og yngri. Hann hljóp á tímanum 20,96 sek með 1,1 m/s löglegan vind í bakið. Metið átti fyrir Jón Arnar Magnússon er hann 27 ára gamall hljóp á 21,17 sek árið 1996, eða fyrir tæpu 21 ári síðan þegar Kolbeinn Höður var rétt um eins árs.

Þetta er 23/100 sek persónuleg bæting hjá norðanmanninum sem er á 22. aldursári – fyrstur undir 21 sekúndu. Mótið fór fram í Memphis Tennessee og var Kolbeinn að viðra sig í keppni utanhúss í fyrsta sinn á þessu tímabili, en hann keppir fyrir Memphis Tigers.

90 mínútum áður var hann 1/100 undir 8 mánaða gömlu Íslandsmeti Ara Braga Kárasonar í 100m hlaupi er hann kom í mark á 10,51 sek, en meðvindur var 3,1 m/s í bakið, 1,1 m/s of mikið til að met sé löglegt.

Keppnistímabilið utanhúss fer af stað með látum og verður eflaust nóg um bætingar á næstu mánuðum. Þá er Ari Bragi líklegast ólmur að svara fyrir sig og taka þátt í bætingalátunum. Eitt er víst að boðhlaupssveitir Íslands stefna á allsherjartopp þetta árið. Aldeilis vel gert og spennandi að fylgjast með á næstu mánuðum.