Keppni á European Throwing Cup hefst á morgun í Leiria, Portúgal og eru fjórir Íslendingar skráðir til leiks.
Hilmar Örn Jónsson er fyrstur Íslendinga til að hefja keppni á mótinu en hann keppir í sleggjukasti og er í kasthópi B og hefst keppni klukkan 10:30 á morgun, laugardag. Hilmar á Íslandsmetið í greininni sem er 77,10 metrar sem hann setti í Kaplakrika árið 2020. Hilmar bætti eigið Íslandsmet í lóðkasti á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð í byrjun febrúar og verður spennandi að sjá hvernig hann opnar tímabilið sitt.
Mímir Sigurðsson keppir í kringlukasti í kasthópi B og hefst keppni klukkan 12:05 á morgun. Mímir opnaði tímabilið sitt síðustu helgi á innanhúss kastmóti í Vaxjö og kastaði þar 54,74 metra. Mímir á best 60,32 metra sem hann kastaði í maí á síðasta ári.
Guðni Valur Guðnason opnar kringlukast tímsbilið sitt klukkan og kastar í kasthópi A. Guðni á Íslandsmetið í greininni sem er 69,35 sem hann setti árið 2020 en hann kastaði lengst 65,39 metra á síðsta ári. Guðni hefur verið að keppa í kúluvarpi í vetur og var meðal annas hluti að NM liði Íslands og Danmerkur í þeirri grein. Það verður gaman að sjá hvað Ólympíufarinn gerir um helgina og hefst keppni klukkan 15:05 á morgun.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppir í sleggjukasti stúlkna í U23 ára flokki og hefst keppni klukkan 16:40 á sunnudag. Elísabet bætti íslandsmet Vigdísar Jónsdóttur í lóðkasti á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð í byrjun febrúar og sýndi þar að hún er í frábæru formi. Hún á Íslandsmetið í sleggjukasti sem er 64,39 metrar en hún bætti það í apríl á síðasta ári. Elísabet keppti á bæði EM U20 og HM U20 í fyrra og er þetta hennar fyrsta mót í U23 ára flokki.
Allar tímasetningar eru að íslenskum tíma!