Kári Steinn sló met Jóns Diðrikssonar í 5000m hlaupi

Kári Steinn hljóp á 14:07,13 mín og bætti met Jóns um rúmlega 6 sek., en met Jóns var 14:13,18 mín, sett í Dublin 21. ágúst 1983. Þetta er annað metið sem Kári Steinn bætir í vor, en fyrir nákvæmlega mánuði síðan bætti Kári Steinn 32 ára gamalt met Sigfúsar Jónssonar í 10.000m hlaupi um 42 sek., þegar hann hljóp á 29:28,05 mín.
Þetta er að sjálfsögðu einnig Íslandsmet í flokki unglinga 21-22 ára, en Kári Steinn verður 22 ára síðar í þessum mánuði. Kári bætti eigin árangur í greininni um 13,5 sek., en hann átti best 14:20,70 mín frá sl. ári.
 
Hlaupið í gær var mjög sterkt, en Kári Steinn varð í 15. sæti í seinni riðli af 23 keppendum, en sá riðill vannst á 13:49,35 mín. Í fyrri riðli sigraði heimsmeistarinn í 5000m hlaupi frá Osaka, Bernard Lagat á 13:16,29 mín.
 
Hægt er að sjá heildarúrslit hlaupins og myndband af hlaupinu á heimasíðu Breiðabliks; www.breidablik.is
 
FRÍ óskar Kára Steini til hamingju með þetta glæsilega Íslandsmet.

FRÍ Author