Jón Bjarni með brons á HM öldunga

Jón Bjarni Bragason varð fjórði Íslendingurinn til þess að keppa á HM öldunga í ár. Jón Bjarni keppti í kastþraut í flokki 45-49 ára og hlaut bronsverðlaun. Kastþraut samanstendur af fimm kastgreinum. Sleggjukasti, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og lóðakasti.

Fyrsta grein til að hefjast var sleggjukast. Þar kastaði Jón Bjarni 46,04 metra og varð annar. Í kúluvarpi flaug kúlan 12,64 metra sem skilaði honum fimmta sæti. Jón Bjarni hélt þó öðru sætinu eftir fyrstu tvær greinarnar og lofaði byrjunin því góðu. Þriðja greinin var kringlukast, þar kastaði hann lengst 41,56 metra og varð aftur fimmti. Að loknum þremur greinum var Jón Bjarni í þriðja sæti. Í spjótkasti kastaði Jón Bjarni 44,91 metra. Aðeins einn keppandi kastaði lengra en það og varð því annar. Síðasta grein var lóðakast þar sem hann kastaði 14,25 metra. Jón Bjarni varð þriðji í heildina með 3.924 stig og hlaut bronsverðlaun. Pavel Penaz frá Tékklandi sigraði með 4.112 stig.

Glæsilegur árangur hjá honum sem og hinum íslensku keppendunum sem áður höfðu lokið keppni.