Íslenskur heimsmeistari og aldursflokkamet á HM öldunga

Heimsmeistaramót öldunga innanhúss fór fram í Póllandi 24. – 30. mars og áttu Íslendingar fjóra fulltrúa á mótinu.

Sigurði Haraldssyni gekk frábærlega á mótinu og varð fjórfaldur heimsmeistari. Sigurður er fæddur árið 1929 og keppir í flokki 90 ára. Hans fyrsti titill kom á fyrsta degi mótsins þegar hann sigraði í lóðakasti. Hann kastaði lengst 9,35 sem er nýtt aldursflokkamet 90 ára. Annar heimsmeistaratitill Sigurðs var í spjótkasti þar sem lengsta kast hans var 20,08 metrar. Sigurður bætti svo við þriðja heimsmeistaratitlinum í safnið í sleggjukasti. Hann kastaði lengst 19,64 metra og bætti þar með 12 ára gamalt aldursflokkamet Haraldar Þórðarsonar um 2 metra. Fjórði heimsmeistaratitill Sigurðs kom í kringlukasti þegar hann kastaði 20,20 metra.

Fríða Rún Þórðardóttir keppir í flokki 45 ára og keppti í þremur greinum á mótinu. Bestum árangri náði hún í 8 km víðavangshlaupi þar sem hún varð fjórða á tímanum 35:26 mínútum. Í 3000 metra hlaupi hljóp hún á 10:59,32 mínútum og varð í áttunda sæti. Þriðja og síðasta grein Fríðu var 10 km hlaup þar sem hún hljóp á 41:01 mínútu og varð í sjötta sæti. Flottur árangur hjá Fríðu Rún sem keppti í þremur langhlaupum á einungis fjórum dögum.

Malgorzata Sambor-Zyrek keppti í 60 metra og 200 metra hlaupi. Í 60 metra hlaupi bætti hún eigið aldursflokkamet í 40 ára flokki. Malgorzata hljóp á 8,44 sekúndum og endaði í 13. sæti í riðlakeppninni. Í 200 metra hlaupinu varð hún þriðja í sínum riðli á tímanum 28,37 sekúndum og komst áfram í undanúrslit. Í undanúrslitum hljóp hún hraðar og bætti aldursflokkametið. Hún varð í fimmta sæti í sínum riðli og fjórtanda í heildina. Tíminn hennar var 28,24 sekúndur.

Kristján Gissurarson keppti í stangarstökki í 65 ára flokki. Hann stökk 3,20 metra sem var jafn hátt og þeir sem lentu í öðru og þriðja sæti. Hann endaði hins vegar í fjórða sæti á vegna fleiri tilrauna.