Íslenskir kastarar byrja vel í Bandaríkjunum

Hilmar Örn Jónsson stundar nám og keppir í sleggjukasti fyrir University of Virginia. Hann byrjaði tímabilið frábærlega og kastaði sleggjunni 72,21 metra. Það er lengra en hann kastaði allt árið 2018 og rétt frá hans besta árangri frá árinu 2017 sem er 72,38 metrar. Þetta kast er það þriðja lengsta í bandarískum háskólum á þessu ári.

Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari, stundar nám og keppir fyrir Rice University í Texas. Erna bætti sig um helgina varpaði kúlunni 15,78 metra. Það er bæting á aldursflokkameti stúlkna 20-22 ára og 18-19 ára. Með þessu kasti er hún komin upp í þriðja sæti íslenska afrekalistans utanhúss. Aðeins Guðrún Ingólfsdóttir og Ásdís Hjálmsdóttir eiga betri árangur.

Thelma Lind Kristjánsdóttir keppir í kringlukasti fyrir University of Virginia. Thelma Lind kastaði kringlunni 50,95 metra á móti í Virginiu í gær og er það hennar ársbesti árangur. Thelma á Íslandsmetið í greininni og er það 54,69 metrar.