Íslenska frjálsíþróttaárið 2017

Íslenska frjálsíþróttaárið 2017 hefur verið einstakt. Aldrei hafa fleiri frjálsíþróttamenn keppt fyrir Íslands hönd á stórmótum og staðið sig jafn vel. 6 íslenskir íþróttamenn eru nú á topp 100 manna lista IAAF, 9 íþróttamenn á topp 75 manna lista EAA og 5 á topp 10 manna lista EAA U23 ára.

Ísland átti 9 keppendur á Evrópumeistaramóti U23 ára og hafa þeir aldrei verið fleiri. Íslensku keppendurnir stóðu sig með glæsibrag og komust 5 þeirra í úrslit. Aníta Hinriksdóttir hafnaði í 2. Sæti í 800 m hlaupi og Arna Stefanía hafnaði í 3. sæti í 400 m grindahlaupi.

Ísland átti 3 keppendur á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum en það voru þau Aníta Hinriksdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir og Hilmar Örn Jónsson. Ásdís komst í úrslit í spjótkasti með kasti uppá 63,06 m. Í úrslitakeppninni kastaði hún 60,16 m og hafnaði í 11. sæti.

Ísland sendi sterkt lið til keppni á Smáþjóðaleikunum og hafnaði liðið í 2. sæti af 8 þátttökuþjóðum. Ísland hlaut 11 gullverðlaun, 8 silfurverðlaun og 5 bronsverðlaun á mótinu eða 24 verðlaun í heildina.

Ísland keppti í 2. deild á Evrópukeppni landsliða en keppnin var gríðarlega hörð á mótinu og hafnaði Ísland í 11. sæti af 12 þátttökuþjóðum. Þrjú neðstu liðin falla niður um deild og féll Ísland því niður í 3. deild. Íslenska landsliðið er þó staðráðið í að komast upp um deild er það keppir aftur á mótinu eftir 2 ár.

Ísland átti 3 keppendur á Evrópumeistaramóti U20 ára og 7 keppendur á Evrópumeistaramóti landsliða í fjölþrautum.

Sett hafa verið alls 16 Íslandsmet í fullorðinsflokki á árinu:

 • Aníta Hinriksdóttir í 800 m innanhúss: 2:01,18 mín, 800 m utanhúss, 2:00,05 mín og 1500 m utanhúss: 4:06,43 mín
 • Ásdís Hjálmsdóttir í kúluvarpi innanhúss: 15,96 og spjótkasti: 63,43 m
 • Hlynur Andrésson í 3000 m innanhúss: 8:06,69 mín og 5000 m utanhúss: 14:00,83 mín
 • Hilmar Örn Jónsson í lóðkasti innanhúss (15,88 kg): 20,71 m
 • Ari Bragi Kárason í 100 m utanhúss: 10,51 sek (+1,5 m/s)
 • Kolbeinn Höður Gunnarsson í 200 m utanhúss: 20,96 sek (+1,1 m/s)
 • Vigdís Jónsdóttir í sleggjukasti: 61,77 m
 • Trausti Stefánsson í 300 m innanhúss: 34,05 sek
 • Ívar Kristinn Jasonarson í 300 m innanhúss: 34,38 sek
 • 4×100 m boðhlaup karla: 40,40 sek (Ari Bragi, Björgvin, Ívar Kristinn og Kolbeinn Höður)
 • 4×100 m boðhlaup karla: 40,45 sek (Ari Bragi, Ívar Kristinn, Kolbeinn Höður og Trausti)
 • 4×100 m boðhlaup kvenna: 45,31 sek (Arna Stefanía, Hrafnhild Eir, Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk)

Aníta Hinriksdóttir ÍR hefur átt frábært ár og hefur hún bætt 800 m tímana sína bæði innanhúss og utanhúss á árinu. Hún hóf innanhússtímabilið með frábæru hlaupi á Reykjavík International Games í febrúar þar sem hún bætti Íslandsmet sitt og bar sigur úr býtum á móti mjög sterkum keppendum frá Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Hljóp hún á tímanum 2:01,18 mínútum og bætti fyrra met sitt um 38/100 úr sekúndu

Aníta Hinriksdóttir hafnaði í 3. sæti á Evrópumeistaramótinu innanhúss sem fram fór í Belgrad, Serbíu, í mars á þessu ári. Hún hljóp á tímanum 2:01,25 mín.

Aníta keppti mikið utanhúss í sumar og stóð sig mjög vel. Á Bislet leikunum sem fram fóru 15. júní sl.  bætti hún Íslandsmet sitt í 800 m hlaupi frá því á Ólympíuleikunum í Ríó á síðasta ári. Hún hljóp á tímanum 2:00,05 mínútum en fyrra metið var 2:00,14 mínútur. Þremur dögum seinna keppti hún á Demantamótinu í Stokkhólmi, Svíþjóð og hljóp hún á tímanum 2:00,06 mínútum.

Aníta hafnaði í 2. sæti á Evrópumeistaramóti U23 ára sem fram fór í Bydgoszcz í Póllandi í júlí sl. og hafnaði í 1. sæti á Evrópubikarkeppni landsliða.

Aníta bætti 30 ára gamalt Íslandsmet Ragnheiðar Ólafsdóttur í 1500 m hlaupi á sterku móti í Hollandi í júní sl. þegar hún hljóp á tímanum 4:06,43 mín. Fyrra metið var 4:14,94 mín.

Í 800 m er Aníta sem stendur í 34. sæti á Heimslistanum utanhúss, 11. sæti á heimslistanum innanhúss. Á Evrópulistanum er hún í 13. sæti utanhúss og í 7. sæti innanhúss.

Í 1500 m er Aníta sem stendur í 24. sæti á Evrópulistanum utanhúss og 65. sæti á Heimslistanum utanhúss.

Árið 2017 var það besta hjá Ásdísí Hjálmsdóttur Ármanni á ferlinum. Hún setti nýtt glæsilegt Íslandsmet á alþjólegu móti í Finnlandi í júlí er hún kastaði 63,43 m og sigraði hún á mótinu. Fyrra metið var 62,77 m sem hún setti á Ólympíuleikunum í London fyrir 5 árum síðan. Með þessu kasti tryggði hún sér farseðilinn Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum. Ásdís hafnaði í 2. sæti á Vetrarkastmóti Evrópu í mars. Hún hafnaði í 4. sæti á sterku móti í Finnlandi í júní og í 3. sæti á Riga Cup mótinu í maí. Hún bar sigur úr býtum í spjótkasti á Smáþjóðaleikunum og hafnaði í 2. sæti í kúluvarpi. Þá hafnaði hún í 2. sæti í spjótkasti á Evrópukeppni landsliða og í 11. sæti á Heimsmeistaramótinu í London.

Ásdís er í 18. sæti á Heimslistanum og í 10. sæti á Evrópulistanum eftir tímabilið.

Ásdís er þar að auki í 42. sæti á Evrópulistanum í kúluvarpi innanhúss og 71. sæti í kúluvarpi utanhúss.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH hóf innanhússtímabilið frábærlega með því að sigra í 400 m hlaupi á Reykjavík International Games í febrúar er hún hljóp á tímanum 53,92 sekúndum og bætti sinn fyrri árangur um 29/100 úr sekúndum. Þá tryggði hún sér um leið þátttökurétt á Evrópumeistaramótinu í Belgrad.

Arna keppti á Norðulandamótinu í frjálsum íþróttum og sigraði hún í hlaupinu á tímanum 54,21 sekúndum. Þá keppti hún ásamt íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum sem fram fóru í San Marino í júní. Hún bar sigur úr býtum í 400 m grindahlaupi og var í sigursveit Íslands í 4×400 m boðhlaupi á mótinu. Arna keppti í 400 m grindahlaupi á Copenhagen games í lok júní og freisti þess að ná lágmarki fyrir Heimsmeistaramótið í London en lágmarkið var 56,10 sekúndur. Hún hljóp á tímanum 56,69 sekúndum og sigraði í hlaupinu. Arna keppti ásamt íslenska landsliðinu á Evrópukeppni landsliða í júní. Hún hafnaði í 2. sæti í 400 m grindahlaupi á mótinu á tímanum 57,00 sekúndum.

Arna Stefanía keppti á Evrópumeistaramóti 23 ára og yngri um miðjan júlí. Hún stóð sig gríðarlega vel, komst beint í undanúrslit með því að hafna í 3. sæti í forkeppninni og komst síðan í úrslitahlaupið með því að hafna í 4. sæti í undanúrslitunum. Hún hljóp glæsilega í úrslitunum og hafnaði í 3. sæti á sínum besta tíma á árinu, 56,37 sekúndum.

Arna lauk tímabilinu á því keppa í sjöþraut á Akureyrarmóti UFA. Hún fékk samtals 5.730 stig fyrir árangur sinn sem er næstbesti árangur íslenskrar konu í sjöþraut frá upphafi. Hún átti áður best 5.383 stig frá árinu 2013.

Arna er í 21. sæti á Evrópulistanum og 67. sæti á Heimslistanum í 400 m grindahlaupi eftir sumarið.

Hún er í 51. sæti á Evrópulistanum í 400 m hlaupi innanhúss og í 52. sæti í sjöþraut.