Íslendingar gera það gott á EM öldunga

Evrópumeistaramót öldunga hófst 27. júlí sl. og stendur mótið yfir til 6. ágúst. Íslendingar eiga 11 keppendur á mótinu en það fer fram í Árósum í Danmörku.

Ísland er komið með samtals tvenn verðlaun á mótinu þegar þetta er skrifað en hér fyrir neðan má sjá nánari lýsingar á afrekum íslensku keppendanna.

Fimmtudagurinn 27. júlí

Jón H. Magnússon ÍR keppti í lóðkasti 5,45 kg í flokki 80-84 ára á Evrópameistaramóti öldunga. Hann stóð sig frábærlega, kastaði 13.76 m og hafnaði í 6. sæti. Hann vantaði aðeins 8 cm upp á 5. sætið. Við óskum honum til hamingju með árangurinn.

Jón Bjarni Bragason Breiðabliki keppti í lóðkasti í flokki 45-49 ára. Hann kastaði lóðinu 14,91 m og hafnaði í 5. sæti af 9 keppendum. Glæsilega gert hjá Jóni Braga!

Föstudagurinn  28. júlí
Halldór Matthíasson ÍR keppti í tugþraut 65-69 ára. Hann hafnaði í 9. sæti með 5.195 stig en árangur hans var eftirfarandi: 100m 15,38 sek, langstökk 3,87 m, kúluvarp (5kg) 8,68 m, hástökk 1.21 m, 400m 81 sek., 100m grindahlaup 23,66 sek, kringlukst 34.58 m (3.sæti), stangarstökk 2,70m (4. Sæti), 1500m 7:31,84 mín. Gríðarlega góður árangur hjá Halldóri að ná 9. sæti þrátt fyrir skakkaföll í kúlunni og fara í gegnum alla þrautina og klára til síðustu greinar.

Laugardagurinn 29. júlí
Hafsteinn Óskarsson ÍR keppti í undanúrslitum í 1500m í flokki 55-59 ára. Hann hljóp í 2. riðli en til að komast áfram þurfti að ná öðru af tveimur fyrstu sætunum í riðlinum eða 10 bestu tímum þar á eftir. Hafsteinn tryggði sig örugglega inn í úrslitin með því að sigra riðilinn á 4:48.49 mín sem var 6. besti tíminn inn í úrslit.
Ólafur Austmann Þorbjörnsson Breiðabliki keppti í undanúrslitum í 1500m hlaupi í flokki 35-39 ára. Hann hljóp á tímanum 4:18,47 mín og komst áfram í úrslit. Var hann að bæta sinn persónulega besta árangur en hann áttu áður 4:21,90 mín frá því á MÍ á Selfossi.
Halldór Matthíasson ÍR keppti í kringlukasti í flokki 65-69 ára. Hann var í 4. sæti í sinni kastgrúppu með kasti upp á 33,68m og komst ekki áfram í 12 manna úrslit. Hann hafnaði í 16. sæti af 22 keppendum.

Sunnudagurinn 30. júlí
Fríða Rún Þórðardóttir ÍR keppti í 4 km víðavangshlaupi í flokki 45-49 ára kl. 10:30 á morguninn. Fjórir flokkar hlupu saman (35, 40, 45 og 50 ára flokkarnir) og voru alls 52 konur sem hlupu. Fríða Rún var örugg í 2-3. sætinu alla leiðina og endaði örugglega í 3. sæti. Hún hafnaði í 9. sæti í heildina á tímanum 13:42 mín en hlaupið vannst á 13:20 mín. Þess má geta að á síðasta Evrópumeistaramóti hafnaði Fríða Rún einnig í 3. sæti í sambærilegu hlaupi.

Kristófer Sæland Jóhansson HSH keppti í þrístökki í flokki 80-84 ára og hafnaði hann í 6. sæti, með 5.60 m. Flott árangur hjá honum.

Hafsteinn Óskarsson ÍR keppti í úrslitum í 1500 m hlaupi karla 55-59 ára. Hann hafnaði í 3. sæti á frábærum tíma 4:33 mín en hann átti best 4:37 mín frá 2016 í þessum aldursflokki. 16 hlauparar kepptu í úrslitahlaupinu og var Hafsteinn í 6. sæti þegar 150m voru eftir. Hann vann sig upp í 3. sætið með þvílíkum endasprett. Glæsileg frammistaða hjá Hafsteini og nýtt Íslandsmet í flokki 55 ára.

Fríða Rún keppti einnig í 1500m þrátt fyrir keppni fyrr um morguninn. Hún hafnaði í 11. sæti á tímanum  5:13,29 mín.

Ólafur Þorbjörnsson Breiðabliki hljóp til úrslita í 1500 m í flokki 35 ára. Hann hljóp á tímanum 4:17,23 mín, hafnaði í 14. sæti í hlaupinu og bætti sinn persónulega árangur frá því daginn áður. Glæsilegur árangur hjá honum.

Jón Bjarni Bragason Breiðabliki keppti í kringlukasti í flokki 45 ára. Hann kastaði 41,63 metra og hafnaði í 6. sæti af 20 keppendum. Frábær frammistaða hjá Jóni Bjarna.

Góður árangur hjá íslensku keppendunum og sendir Frjálsíþróttasamband Íslands þeim baráttustrauma!

ÁFRAM ÍSLAND!