Íslandsmet og HM U20 lágmark hjá Andreu

Andrea í hlaupinu í kvöld

Sólin skein, fuglarnir sungu og hitastigið rétt um 10 gráður. Svona voru aðstæður í Laugardalnum þegar Andrea Kolbeinsdóttir setti fyrr í kvöld Íslandsmet í 3000 metra hindrunarhlaupi.  Fyrir hlaupið átti Andrea 10:57 en stórbætti sig og hljóp á 10:31,69 mín. Það er einnig undir lágmarkinu fyrir HM U20 sem fer fram í Finnlandi 10. – 15. júlí.

Aðspurð segir Andrea að metið hafi komið sér skemmtilega á óvart. Hún hafi samt vitað að hún ætti mikið inni þar sem hún sé búin að vera að bæta sig mikið í öllu greinum undanfarið. Fyrst á HM í hálfu maraþoni í mars þar sem hún hljóp á næst hraðasta tíma sem íslensk kona hefur hlaupið á frá upphafi. Í síðasta mánuði sló hún Íslandsmet í flokki 18-19 og 20-22 ára í 3000 m innanhúss og svo í síðustu viku stórbætti hún sig í 5000 m. Þar var hún aðeins 2 sekúndum frá aldursflokkametinu sem Martha þjálfari hennar á.

Markmið hennar hefur verið að ná þessu HM U20 lágmarki sem var 10:43 og reyna við Íslandsmetið í leiðinni sem var 10:42.

Glæsilegur árangur og við hlökkum til að fylgjast með henni í sumar.