Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) bætti eigið Íslandsmet í sleggjukasti á bandaríska háskólameistaramótinu í Austin, Texas á fimmtudaginn. Hún kastaði lengst 66,98m sem skilaði henni sjöunda sætinu. Fyrra metið var 65,53m sem hún setti í byrjun maí á þessu ári. Þetta er fyrsta háskólaár Elísabetar í Bandaríkjunum og hefur hún átt glæsilegt tímabil.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) varð í fimmtánda sæti með kasti upp á 63,62m. Hún hefur átt stórkostlegt tímabil í Bandaríkjunum en hún er á sínu öðru háskólaári. Guðrún byrjaði tímabilið með bestan árangur upp á 60,14m og hefur nú kastað lengst 65,42m lengst í ár.
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) varð ellefta í kúluvarpi kvenna á mótinu með kasti upp á 17,24m. Hennar tímabil í Bandaríkjunum var einnig glæsilegt. Hún bætti Íslandsmetið sitt í greininni bæði innan- og utanhúss.
Tvö met í hættu á Copenhagen Athletics Games
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) hljóp enn og aftur undir Íslandsmetinu í 100m hlaupi og varð aftur óheppinn með vind. Hann hljóp á tímanum 10,45 sek. í undanrásunum með +2,4 í vind og fékk svo mótvind í úrslitahlaupinu þar sem hann var annar á eftir silfurverðlaunahafanum á HM 2022 í 100m, Marvin Bracy, á tímanum 10,58 sek. (-1,4). Kolbeinn varð svo fjórði í 200m hlaupi á tímanum 21,56 sek. (-1,1)
Daníel Ingi Egilsson (FH) sigraði í langstökki á mótinu með aðra risa bætingu, 7,92m (0,0) og nálgast hann met Jón Arnars Magnússonar frá árinu 1994 sem er 8,00m. Daníel á nú annað lengsta stökk Íslendings frá upphafi.
Irma Gunnarsdóttir (FH) varð önnur í langstökki kvenna með 6,35m (0,0) og Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) í sjötta sæti með 5,94m (+1,6). Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) varð sjöunda í 200m hlaupi á 24,32 sek. (-1,5). Aníta Hinriksdóttir (FH) varð fimmta í 800m hlaupi á nýju ársbesta 2:04,61 mín.
Flottur árangur hjá kösturunum
Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) sigraði í spjótkasti á Atletica Geneve mótinu í Genf, Sviss. Hann kastaði lengst 76,99m. Dagbjartur er búinn að kasta lengst 78,56m lengst í ár. Aníta Hinriksdóttir var einnig á meðal keppenda á mótinu og hljóp hún á tímanum 2:05,70 mín og varð sjöunda.
Hilmar Örn Jónsson (FH) varð þriðji í sleggjukasti á Jyväskylä Motonet GP í Jyväskylä í Finnlandi. Hann kastaði lengst 74,03 metra sem er alveg við hans ársbesta sem er 74,11m. Sigurvegarinn var Thomas Mardal frá Noregi með kasti upp á 76,15m
Guðni Valur Guðnason (ÍR) varð fjórði í kringlukasti í mjög sterkri keppni á Folksam Grand Prix mótinu í Sollentuna í Svíþjóð. Guðni kastaði lengst 63,32m og er hann búinn að kasta lengst 63,83m í ár. Sigurvegarinn var Ólympíumeistarinn Daniel Ståhl frá Svíþjóð með 70,93m.
Ísold Norðurlandameistari
Ísold Sævarsdóttir (FH) varð í gær Norðurlandameistari í sjöþraut stúlkna U18 ára í Borås í Svíþjóð. Ísold hlaut 5277 stig sem er nýtt persónulegt met og sigraði hún af miklu öryggi. Hekla Magnúsdóttir (Ármann) var í sjöunda sæti í sama aldursflokki með 4648 stig sem er einnig persónulegt met og Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) varð fimmti í tugþraut pilta U20 ára með 6491 stig sem er líka persónulegt met. Ísak Óli Traustason (UMSS) varð að hætta keppni vegna meiðsla.
Hægt er að sjá árangur í einstaka greinum hér.
HSK/Selfoss Íslandsmeistarar félagsliða 15-22 ára
Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram á Kópavogsvellium helgina. Mikið var um persónulegar bætingar og ársbesta árangra eða um 220 talsins. Það var lið HSK/Selfoss sem sigraði í stigakeppni félagsliða og sigruðu þau í þremur aldrusflokkum.
Hægt er að lesa meira um mótið hér.
Heildarúrslit mótsins má finna hér.