Fyrri degi er lokið á Meistaramóti Íslands sem fer fram á Sauðárkróki um helgina þar sem eitt Íslandsmet og eitt aldursflokka met féllu. Sveit ÍR í 4×100 metra hlaupi kvenna bættu eigið Íslandsmet þegar þær komu í mark á 46,29 sekúndum. Sveitina skipuðu Íslandsmeistarinn í 100 metra spretthlaupi, Tiana Ósk Whitworth, Evrópumeistarinn í flokki stúlkna 16-17 ára, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og svo Hrafnhild Eir R Hermóðsdóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir. Sveit FH hafnaði í öðru sæti og Sveit Breiðabliks í því þriðja.
Í hástökki karla sigraði hinn 15 ára gamli Kristján Viggó Sigfinnsson. Hann stökk 2,02 metra, sem er einnig Íslandsmet í flokki 15 ára pilta. Benjamín Jóhann Johnsen varð annar með stökk upp á 1,99 metra og Jón Gunnar Björnsson hafnaði í þriðja sæti.
Hafdís Sigurðardóttir stökk lengst í langstökki eða 6,30 metra. Birna Kristín Kristjánsdóttir varð önnur með stökk upp á 6,04 metra. Irma Gunnarsdóttir varð þriðja.
Í 100 metra hlaupi kvenna vann Tiana Ósk Whitworth á 11,75 sekúndum. Hún var 0,11 sekúndum á undan Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur sem varð önnur. Hrafnhild Eir R Hermóðsdóttir varð þriðja á 11,97 sekúndum.
Í 100 metra hlaupi karla kom Jóhann Björn Sigurbjörnsson fyrstur í mark á 10,66 sekúndum. Ívar Kristinn Jasonarson var annar á 10,81 sekúndu og Kristófer Þorgrímsson varð þriðji á 10,94 sekúndum.
Ívar Kristinn Jasonarson vann 400 metra hlaup karla á 49,25 sekúndum. Arnar Valur Vignisson varð annar og Bjarni Anton Theodórsson hafnaði í þriðja sæti. Í kvennaflokki vann Þórdís Eva Steinsdóttir öruggan sigur. Hún hljóp á 56,42 sekúndum. Melkorka Rán Hafliðadóttir og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir tóku annað og þriðja sætið.
Dagur Andri Einarsson, Kristófer Þorgrímsson, Arnaldur Þór Guðmundsson og Ari Bragi Kárason skipuðu sveit FH sem vann öruggan sigur í 4×100 metra boðhlaupi á tímanum 41,63 sekúndur. Sveinbjörn Óli Svavarsson, Ísak Óli Traustason, Daníel Þórarinsson og Jóhann Björn Sigurbjörnsson í sveit UMSS urðu í öðru sæti.
Iðunn Björg Arnaldsdóttir kom fyrst í mark í 1500 metra hlaupi. Hún hljóp á 4:56,85 mínútum. Þremur sekúndum á eftir henni kom Helga Guðný Elíasdóttir og Sólrún Soffía Arnardóttir varð þriðja.
Ólympíufarinn Ásdís Hjálmsdóttir vann öruggan sigur í kúluvarpi er hún kastaði 15,11 metra, sem er nýtt mótsmet. Erna Sóley Gunnarsdóttir kom þar á eftir með kast upp á 14,44 metra og Thelma Lind Kristjánsdóttir varð þriðja.
Ásdís sigraði einnig spjótkastið. Þar kastað hún lengst 57,74 metra sem er einnig mótsmet. María Rún Gunnlaugsdóttir varð önnur með kast upp á 42,80 metra og Irma Gunnarsdóttir varð þriðja.
Sindri Hrafn Guðmundsson vann í spjótkasti er hann kastaði 77,01 metra. Dagbjartur Daði Jónsson kom þar á eftir með kast upp á 69,82 metra og Örn Davíðsson var þriðji með 69,33 sem lengsta kast.
Ari Sigþór Eiríksson vann langstökkið er hann stökk 7,07 metra. Ingi Rúnar Kristinsson varð annar og Juan Borges varð þriðji. Í stangarstökki kvenna stökk Bogey Ragnheiður Leósdóttir 3,52 metra og stóð uppi sem sigurvegari. Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir varð önnur og Hilda Steinunn Egilsdóttir þriðja.
1.500 metra hlaupi karla var æsispennandi. Þar sigraði Sæmundur Ólafsson þegar hann kom í mark á 4:05,51 mínútum, 0,14 sekúndum á undan Kristni Þór Kristinssyni sem varð annar. Bjartman Örnuson varð þriðji.