Íslandsmet á fyrri degi Meistarmóts Íslands

Fyrri degi er lokið á Meistaramóti Íslands sem fer fram á Sauðárkróki um helgina þar sem eitt Íslandsmet og eitt aldursflokka met féllu. Sveit ÍR í 4×100 metra hlaupi kvenna bættu eigið Íslandsmet þegar þær komu í mark á 46,29 sek­únd­um. Sveit­ina skipuðu Íslands­meist­ar­inn í 100 metra spretthlaupi, Tiana Ósk Whitworth, Evr­ópu­meist­ar­inn í flokki stúlkna 16-17 ára, Guðbjörg Jóna Bjarna­dótt­ir og svo Hrafn­hild Eir R Hermóðsdótt­ir og Helga Mar­grét Har­alds­dótt­ir. Sveit FH hafnaði í öðru sæti og Sveit Breiðabliks í því þriðja.

Í hástökki karla sigraði hinn 15 ára gamli Kristján Viggó Sig­finns­son. Hann stökk 2,02 metra, sem er einnig Íslandsmet í flokki 15 ára pilta. Benja­mín Jó­hann Johnsen varð ann­ar með stökk upp á 1,99 metra og Jón Gunn­ar Björns­son hafnaði í þriðja sæti.

Haf­dís Sig­urðardótt­ir stökk lengst í lang­stökki eða 6,30 metra. Birna Krist­ín Kristjáns­dótt­ir varð önn­ur með stökk upp á 6,04 metra. Irma Gunn­ars­dótt­ir varð þriðja.

Í 100 metra hlaupi kvenna vann Tiana Ósk Whitworth á 11,75 sek­únd­um. Hún var 0,11 sek­únd­um á und­an Guðbjörgu Jónu Bjarna­dótt­ur sem varð önn­ur. Hrafn­hild Eir R Hermóðsdótt­ir varð þriðja á 11,97 sek­únd­um.

Í 100 metra hlaupi karla kom Jó­hann Björn Sig­ur­björns­son fyrst­ur í mark á 10,66 sek­únd­um. Ívar Krist­inn Ja­son­ar­son var ann­ar á 10,81 sek­úndu og Kristó­fer Þorgríms­son varð þriðji á 10,94 sek­únd­um.

Ívar Krist­inn Ja­son­ar­son vann 400 metra hlaup karla á 49,25 sek­únd­um. Arn­ar Val­ur Vign­is­son varð ann­ar og Bjarni Ant­on Theo­dórs­son hafnaði í þriðja sæti. Í kvenna­flokki vann Þór­dís Eva Steins­dótt­ir ör­ugg­an sig­ur. Hún hljóp á 56,42 sek­únd­um. Mel­korka Rán Hafliðadótt­ir og Dag­björt Lilja Magnús­dótt­ir tóku annað og þriðja sætið.

Dag­ur Andri Ein­ars­son, Kristófer Þorgrímsson, Arn­ald­ur Þór Guðmunds­son og Ari Bragi Kára­son skipuðu sveit FH sem vann ör­ugg­an sig­ur í 4×100 metra boðhlaupi á tím­an­um 41,63 sek­únd­ur. Svein­björn Óli Svavars­son, Ísak Óli Trausta­son, Daní­el Þór­ar­ins­son og Jó­hann Björn Sig­ur­björns­son í sveit UMSS urðu í öðru sæti.

Iðunn Björg Arn­alds­dótt­ir kom fyrst í mark í 1500 metra hlaupi. Hún hljóp á 4:56,85 mín­út­um. Þrem­ur sek­únd­um á eft­ir henni kom Helga Guðný Elías­dótt­ir og Sól­rún Soffía Arn­ar­dótt­ir varð þriðja.

Ólymp­íufar­inn Ásdís Hjálms­dótt­ir vann ör­ugg­an sig­ur í kúlu­varpi er hún kastaði 15,11 metra, sem er nýtt móts­met. Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir kom þar á eft­ir með kast upp á 14,44 metra og Thelma Lind Kristjáns­dótt­ir varð þriðja.

Ásdís sigraði einnig spjótkastið. Þar kastað hún lengst 57,74 metra sem er einnig móts­met. María Rún Gunn­laugs­dótt­ir varð önn­ur með kast upp á 42,80 metra og Irma Gunn­ars­dótt­ir varð þriðja.

Sindri Hrafn Guðmunds­son vann í spjót­kasti er hann kastaði 77,01 metra. Dag­bjart­ur Daði Jóns­son kom þar á eft­ir með kast upp á 69,82 metra og Örn Davíðsson var þriðji með 69,33 sem lengsta kast.

Ari Sigþór Ei­ríks­son vann lang­stökkið er hann stökk 7,07 metra. Ingi Rún­ar Krist­ins­son varð ann­ar og Juan Bor­ges varð þriðji. Í stang­ar­stökki kvenna stökk Bo­gey Ragn­heiður Leós­dótt­ir 3,52 metra og stóð uppi sem sig­ur­veg­ari. Rakel Ósk Dýr­fjörð Björns­dótt­ir varð önn­ur og Hilda Stein­unn Eg­ils­dótt­ir þriðja.

1.500 metra hlaupi karla var æsispennandi. Þar sigraði Sæmundur Ólafsson þegar hann kom í mark á 4:05,51 mín­út­um, 0,14 sek­únd­um á und­an Kristni Þór Krist­ins­syni sem varð ann­ar. Bjartman Örnu­son varð þriðji.