Ísland í 4. sæti í Evrópukeppni landsliða

Þetta er fjölmennasta alþjóðlega frjálslíþróttamótið sem fram hefur farið hér á landi, en alls tóku 416 einstaklingar þátt í mótinu, auk nokkurra boðhlaupara sem ekki voru skráðir í einstaklingsgreinar. 
 
Efstu tvö liðin keppa í 2. deild að tveimur árum liðnum, þegar þessi keppni verður næst haldin, en niður komu Slóvakía og Lettland. Sigurvegarar í efstu deild og Evrópumeistarar landsliða var lið Rússlands, en frændur okkar Svíar féllu úr efstu deild. Á móti kemur að Norðmenn voru meðal þriggja liða sem færast upp í efstu deild, þannig að Norðurlöndin eiga áfram fulltrúa þar. Finnar sigldu lygnan sjó í næst-efstu deild og Danir, sem komust upp í 2. deild í fyrra, héldu sæti sínu þar nokkuð örugglega. Frekari upplýsingar um Evrópukeppni landsliða má sjá hér á síðu EAA (http://www.european-athletics.org/). 
 
Árangur íslenska liðsins var nokkuð jafn í mikilli keppni og þrátt fyrir að eiga ekki nema einn sigurvegara, Ásdísi Hjálmsdóttur í spjótkastinu, í þeim 40 greinum sem keppt var í á mótinu. Þá var liðið í baráttu efstu liða og þrátt fyrir að gera ógilt í 4 x 100 m boðhlaupi og missa aðalmann úr 110 m gr. karla og önnur forföll. Kvenfólkið sýndi af sér góða tilburði í boðhlaupunum, en þær urðu í 2. í báðunum greinunum. Af öðrum árangri má nefna að Hafdís Sigurðardóttir varð önnnur í langstökki með 5,99 m. Bjarki Gíslason varð 3. í stangarstökki á 4,80 m sem er bæting hjá honum. Fjölþrautarkonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir náði 2. sæti í kúluvarpi kvenna með 13,90 m. Stóru mennirnir Óðinn Björn Þorsteinssson og Bergur Ingi Pétursson urðu báðir í 3. sæti í sínum greinum. Kári Steinn Karlsson var í baráttunni í sínum greinum, en hann varð 3. í bæði 3.000 og 5.000 m hlaupum. og Fjóla Signý Hannesdóttir sýndi góða tilburði í 400 m hlaupi. Björgvin Víkingsson varð einnig í 3. sæti í 400 m grindarhlaupi, svo nokkur afrek séu týnd til. 
 
Meðal helstu annarra afreka mótsins hér í Reykjavík var árangur Danelle Frenkel frá Ísrael í hástökk en hún fór 1,84 m, en felldi 1,90 m. Landi hennar Yevgeniy Olkovskiy sem á best 5,47 m í stangarstökki lét sér 5,05 m duga til sigurs. Hin fertuga Irina Lensky keppti í 200 m hlaupi á 24,26 sek, en hennar aðalgrein er 100 m grindarhlaup. Athylgi nokkurra áhorfenda vakti 5.000 m hlaupari frá Möltu, Gieslle Camilleri, sem stökk upp í stúku strax eftir hlaupið til að gefa nokkurra mánaða barni sínu á brjóst. Síðan tók hún á rás út á völl til að skokka niður.
 
Hægt er að skoða öll úrslit mótsins á mótaforriti FRÍ hér: (http://mot.fri.is/cgi-bin/ibmot/timesedillib1643.htm).

FRÍ Author