Ísland heldur sæti sínu í annarri deildinni

Evrópubikar landsliða lauk í gær og enduðu Íslendingar í 9. sæti í annarri deildinni með 116,5 stig. Þrjú lið mættu ekki til leiks og falla því niður um deild og heldur Ísland sæti sínu í annarri deildinni.

Hlynur Andrésson, Baldvin Þór Magnússon og Erna Sóley Gunnarsdóttir unnu eina grein hvor. 

Hlynur sigraði 5000 metra hlaup karla og kom í mark á tímanum 14:13,73 mínútum. Í öðru sæti var Ungverjinn Levente Szemerei á tímanum 14:20,15 mín og í þriðja sæti var Mikkel Dahl-Jessen á tímanum 14:23,48 mínútum.

Baldvin Þór sigraði 3000 metra hlaup karla þegar hann kom í mark á tímanum 8:01,56 mínútum. Hann var aðeins 19 sekúndubrotum frá Íslandsmeti Hlyns í greininni en hann á metið innanhúss. Í öðru sæti var Joel Ibler Lillesø frá Danmörku á tímanum 8:01,88 mínútum og Ungverjinn Márk Vörös í því þriðja á tímanum 8:03,26 mínútum. Baldvin náði einnig þriðja sæti í 1500 metra karla og kom hann í mark á 3:47,54 mínútum og var það Litháen Simas Bertasius sem sigraði á tímanum 3:46,24 mínútum.

Erna Sóley sigraði kúluvarp kvenna en hún var þó töluvert frá sínu besta. Hún varpaði kúlunni lengst 15,94 metra en íslandsmet hennar í greininni utanhúss er 16,77 metrar. Í öðru sæti var Króatinn Marija Tolj með 15,60 metra og í því þriðja var Ungverjinn Violetta Veilan með 15,48 metra.

Öll úrslit frá mótinu má finna hér.