Ísak Óli Íslandsmeistari í sjöþraut

Um helgina fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum í Laugardalshöllinni og lauk sjöþraut karla í dag. Ísak Óli Traustason, UMSS, hlaut flest stig og varð Íslandsmeistari, í öðru sæti varð Bjarki Rósantsson, Breiðabliki, og í þriðja sæti varð Andri Fannar Gíslason, KFA.

Ísak Óli fékk 5336 stig og er það hans næst besta þraut frá upphafi, einungis átta stigum frá hans besta árangri sem hann náði á sama móti fyrir ári síðan. Ísak hafði mikla yfirburði um helgina og sigraði í öllum sjö greinum þrautarinnar.

Árangur Ísaks Óla í einstaka greinum:
• 60 metrar: 7,14 sekúndur
• Langstökk: 7,03 metrar
• Kúluvarp: 13,00 metrar
• Hástökk: 1,82 metrar
• 60 metra grind: 8,41 sekúnda
• Stangarstökk: 4,23 metrar
• 1000m: 2:46,01 mínútur

Í sjöþraut pilta 18-19 ára sigraði Dagur Fannar Einarsson með 4776 stig og í flokki pilta 16-17 ára sigraði Þorleifur Einar Leifsson með 3718 stig.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.