Irma og Guðbjörg Jóna með mótsmet á fyrri degi MÍ 15-22 ára

Fyrri degi Meistaramóts Íslands 15-22 ára sem fram fer í Kaplakrika er lokið. Tvö mótsmet féllu og fjölmargir að bæta sín persónulegu met. Heildarstigakeppnina leiðir ÍR með 202 stig, í öðru sæti er HSK/Selfoss með 157 stig og í því þriðja er FH með 138 stig.

Flestu Íslandsmeistaratitla í aldursflokkum á FH sem er með ellefu gull, næst flest er ÍR með tíu og í því þriðja kemur HSK/Selfoss með átta.

Guðbjörg Jóna á MÍ 15-22 ára

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sigraði 60 metra hlaup stúlkna 18-19 ára á tímanum 7,53 sekúndum. Það er nýtt mótsmet og persónuleg bæting hjá Guðbjörgu sem átti fyrir 7,58 sekúndur frá því á stórmóti ÍR fyrir viku síðan. Í öðru sæti varð Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, á tímanum 7,86 sekúndur sem er persónulegt met og í því þriðja varð Helga Margrét Haraldsdóttir, ÍR, á tímanum 7,88 sekúndum.

Irma Gunnarsdóttir á MÍ 15-22 ára

Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, sigraði í þrístökki stúlkna 20-22 ára þegar hún stökk 12,00 metra. Það er nýtt mótsmet og persónuleg bæting hjá Irmu, fyrir átti hún 11,32 metra innanhúss og 11,99 metra utanhúss í of miklum vind. Þetta var því í fyrsta skipti sem Irma stekkur yfir 12 metra. Í öðru varð Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, sem stökk 11,68 metra. Sá árangur var yfir gamla mótsmetinu. Í þriðja sæti varð Vilborg María Loftsdóttir, ÍR, sem stökk 11,17 metra.

Hér má sjá öll úrslit mótsins og dagskrá fyrir seinni daginn sem hefst klukkan 9:30 á 60 metra grindarhlaupi 15 ára stúlkna.