Íris Berg nýr verkefnastjóri hjá FRÍ

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur ráðið Írisi Berg Bryde í starf verkefnastjóra á skrifstofu FRÍ. Íris var ráðin úr stórum og flottum hópi umsækjenda. Þeim er þakkaður áhugi á starfinu.

Íris er 28 ára og er með B.A. gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði. Hún er með reynslu úr íþróttahreyfingunni á Íslandi og var meðal annars starfsmaður í skipulagsnefnd Smáþjóðaleikana 2015. Hún var valin sem ungur sendiherra Íslands á Ólympíuleika Ungmanna 2016 í Lillehammer og verið sjálfboðaliði hjá HSÍ síðan 2014.
Íris æfir crossfit, hefur áhuga á frjálsum íþróttum og hefur mikinn metnað fyrir því að bæta starfið í frjálsum íþróttum á Íslandi. Hún mun vinna náið með framkvæmdastjóra og stjórn FRÍ auk þess að vera í sambandi við aðildarfélög sambandsins um land allt. Hennar bíða krefjandi verkefni og óskum við henni góðs gengis ásamt því að bjóða hana velkomna til starfa.