ÍR Íslandsmeistarar innanhúss árið 2010

Arndís Ýr Hafþórsdóttir úr Fjölni bætti Íslandsmet í Ungkvennaflokki í 3000m hlaupi þegar hún hljóp á tímanum 9:54,45min. Gamla metið átti Íris Anna Skúladóttir, einnig úr Fjölni, frá árinu 2006 (10:01,70min). En Íris Anna hljóp einnig undir metinu eða á 10:01,69min.
 
Hin unga Aníta Hinriksdóttir úr ÍR setti nýtt telpna og meyjamet í 3000m hlaupi þegar hún hljóp á tímanum 10:29,15min, sem dugði henni í 3 sæti. Hún setti einnig nýtt telpnamet í 1500m hlaupi, en hún hljóp á 4:47,30min og endaði í fjórða sæti.
 
Mikil spenna var í 200m hlaupi kvenna þar sem félagssysturnar úr ÍR, Arna Stefanía  Guðmundsdóttir og Dóróthea Jóhannesdóttir, komu nánast jafnar í mark, en það var Arna sem sigraði á tímanum 25,55sek. og Dóróthea varð önnur á tímanum 25,80sek. Arna Stefanía keppti einnig í 400m hlaupi þar sem hún endaði í öðru sæti, á tímanum 57,20sek., en það er nýtt meyja og stúlkna met. Helga Margrét Þorsteinsdóttir sigraði í 400m hlaupinu og setti um leið ungkvennamet, á tímanum 55,52sek.
 
Linda Björk Lárusdóttir, frá Breiðablik, sigraði í bæði 60m (7,93sek.) og 60m grind (8,90sek.) á mótinu. Önnur í 60m grind (9,06sek.) var Jóhanna Ingadóttir frá ÍR, en hún sigraði einnig tvöfalt á leikunum. Annars vegar í langstökki (5,82m) og í þrístökki (11,95m).   
 
Örn Davíðsson úr FH, vippaði sér yfir 1,97sm í hástökki karla, sem veitti honum 1. sætið. Annar var Steinn Orri Erlendsson, úr Breiðablik, sem stökk yfir 1,91sm.
  
Langstökk án atrennu var sérstök aukagrein á mótinu og var fjöldi keppenda skráður til leiks í greinina. Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni sigraði í kvennaflokki, með stökk uppá 2,49m. Í flokki karla sigraði Gunnar Páll Halldórsson frá Breiðablik, en hann stökk 3,08m. 
 
Öll úrslit frá mótinu má finna í mótaforriti FRÍ 
 
Umfjöllun RÚV um mótið – laugardagur – sunnudagur
 
Umfjöllun Stöð2 um mótið – sunnudagur
 
Frétt um mótið á mbl.is – 1. frétt2. frétt3. frétt – nánar verður fjallað um mótið í mánudagsblaði Morgunblaðsins.
 

FRÍ Author