ÍR stigameistari á MÍ 15-22 ára

Glæsilegu Meistaramóti Íslands 15-22 ára lauk um helgina á Selfossi. ÍR fagnaði sigri í heildarstigakeppninni og er þetta sextánda árið í röð sem ÍR-ingar bera sigur úr býtum. Alls hlutu ÍR-ingar 97 verðlaun; 40 gull, 35 silfur og 22 brons.

Níu mótsmet voru sett um helgina og voru fjölmargir að bæta sinn besta árangur. Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, setti nýtt mótsmet í spjótkasti pilta 20-22 ára. Dagbjartur kastaði 71,62 metra, sigraði örugglega í greininni og bætti aldursflokkatitli við það sem hann hefur afrekað á árinu. Dagbjartur sigraði nýverið í greininni á Smáþjóðaleikunum, setti nýtt aldursflokkamet og á lengsta kast ársins á Íslandi.

Dagbjartur Daði Jónsson

Kormákur Ari Hafliðason, FH, setti mótsmet í 400 metra hlaupi pilta 20-22 ára. Kormákur er 22 ára og því að keppa á sínu síðasta Meistaramóti ungmenna. Tími hans um helgina var 49,57 sekúndur. Myndband frá æfingu Kormáks og viðtal við hann fyrir mótið má horfa á hér að neðan.

Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðablik, sett mótsmet í langstökki þegar hún stökk 5,92 metra og sigraði í greininni. Birna keppir í flokki 16-17 ára og á hún aldursflokkametið sem er 6,10 metrar. Birna Kristín hljóp undir mótsmetinu í 100 metra hlaupi stúlkna 16-17 ára en vindur var yfir leyfilegum mörkum. Tími hennar í úrslitahlaupinu var 12,18 sekúndur.

Birna Kristín Kristjánsdóttir

Í 100 metra hlaupi stúlkna 18-19 ára komu ÍR stelpurnar Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth báðar í mark á 11,72 sekúndum. Guðbjörg var hins vegar örlítið á undan og var því dæmdur sigurinn. Tími þeirra beggja var nýtt mósmet í greininni.

Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk

Fleiri ÍR-ingar voru að gera góða hluti um helgina því Ingibjörg Sigurðardóttir og Stella Dögg blöndal settu báðar mótsmet. Ingibjörg keppti í 400 metra hlaupi stúlkna 18-19 ára þegar hún sigraði í greininni á 58,31 sekúndu. Stella Dögg sigraði í stangarstökki stúlkna 20-22 ára með því að stökkva yfir 3,20 metra.

Stella Dögg Blöndal

Sveit ÍR í flokki stúlkna 18-19 ára setti mótsmet í 4×100 metra boðhlaupi á tímanum 48,42 sekúndum. Sveitina skipuðu Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Tiana Ósk Whitworth, Þóra Kristín Hreggviðsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir.

Hin unga og efnilega Úlfheiður Linnet úr FH setti mótsmet í 1500 metra hlaupi stúlkna 15 ára. Hún hljóp á 5:07,40 mínútum.

Úlfheiður Linnet

Hápunktur mótsins var klárlega þegar Guðbjörg Jóna Bjarna­dótt­ir, ÍR, bætti eigið Íslands­met í 200 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands 15-22 ára sem fram fór á Selfossi um helgina. 200 metra hlaupið fór fram í gær og kom Guðbjörg fyrst í mark á tímanum 23,45 sekúndum. Fyrra met Guðbjarg­ar í grein­inni var 23,47 sek­únd­ur sem hún setti á Ólympíuleikum ungmenna í Argentínu síðasta haust. 

Í sama hlaupi hljóp Tiana Ósk Whitworth, ÍR, í fyrsta sinni undir 24 sekúndum og kom í mark á 23,82 sekúndum í öðru sæti.

Myndband af hlaupinu má sjá á vef RÚV.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.