ÍR stigameistari á Meistaramóti Íslands 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram í Kaplakrika um helgina. ÍR varð Íslandsmeistari í samanlagðri stigakeppni allra flokka með 498,5 stig og er þetta sautjánda árið í röð sem ÍR ber sigur úr býtum. Alls hlutu ÍR-ingar 36 gull, 32 silfur og 17 brons. Breiðablik varð í öðru sæti með 305,5 stig og HSK/Selfoss rétt á eftir í þriðja með 301 stig.

Þrjú mótsmet voru sett á þessum seinni degi og því níu í heildina. Alls voru nítján árangrar undir mótsmeti en tíu þeirra ekki gild vegna meðvinds yfir löglegum mörkum.

Þrjú gull og mótsmet hjá Tiönu Ósk

Tiana Ósk Whitworth úr ÍR keppti í 200 metra hlaupi á seinni degi mótsins. Hún kom fyrst í mark á 24,58 sekúndum (+0,7 m/s) og voru það hennar þriðju gullverðlaun á mótinu. Á fyrri degi hafði hún fengið gull í 100 metrum og 4×100 metra boðhlaupi. Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Tiönu eftir 200 metra hlaupið.

Birnir og Glódís með mótsmet í grind

Hin tvö mótsmetin á þessum seinni degi komu bæði í grindarhlaupi 16-17 ára. Birnir Vagn Finnsson sem keppir fyrir UFA bætti sinn besta árangur og setti mótsmet í 110 metra grindarhlaupi. Tími hans var 14,91 sekúnda með 0,5 m/s meðvind. Glódísi Eddu Þuríðardóttur, KFA, setti einnig mótsmet í 100 metra grindarhlaupi. Glódís kom í mark á 14,37 sekúndum (-0,8 m/s) sem er átta sekúndubrotum frá hennar besta.

Markús áttfaldur Íslandsmeistari

Hinn ungi og efnilegi Markús Birgisson úr Breiðabliki átti frábært mót þegar hann varð áttfaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára pilta. Hann fékk gull í 100 metra hlaupi, 100 og 300 metra grindarhlaupi, 4×100 metra boðhlaupi, hástökki, stangarstökki, langstökki og kringlukasti. Auk þess fékk hann silfur í spjótkasti og brons í 300 metra hlaupi. Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Markús.

Bætingar og verðlaun hjá Arndísi og Úlfheiði

FH-ingarnir Arndís Diljá Óskarsdóttir og Úlfheiður Linnet keppa í flokki stúlkna 16-17 ára. Arndís keppir í kastgreinum en Úlfheiður er sterkust í millivegalengdarhlaupum. Arndís vann til gullverðlauna í kúluvarpi, kringlukasti og spjótkasti ásamt því að fá brons í sleggjukasti. Arndís bætti sinn besta árangur í öllum fjórum greinum. Úlfheiður fékk gull í 800 og 1500 metra hlaupi og silfur í 4×100 metra boðhlaupi. Hér fyrir neðan má sjá viðtal við þær.

Kastarinn knái úr FH, Mímir Sigurðsson, varð þrefaldur Íslandsmeistari um helgina. Hann vann til gullverðlauna í kringlukasti, sleggjukasti og spjótkasti í flokki 20-22 ára pilta. Hans sterkasta grein er kringlukast þar sem hann er í þrettánda sæti afrekalistans eftir góða bætingu fyrir stuttu síðan. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í 200 metra hlaupi þegar hún kom í mark á 24,35 sekúndum (+2,0 m/s). Það voru hennar þriðju gullverðlaun um helgina.

Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, sigraði í langstökki stúlkna 20-22 ára með stökk upp á 5,64 metra og í sama aldursflokki hjá piltunum sigraði Gunnar Eyjólfsson, UFA, með 6,81 metra stökk. Hildigunnur sigraði einnig í 100 metra grindarhlaupi á 15,39 sekúndum og Gunnar bætti mótsmet í stangarstökki á fyrri degi þegar hann stökk yfir 4,20 metra. Í 200 metra hlaupi pilta átti Óliver Máni Samúelsson, Ármanni, besta tíman. Hann kom í mark á 22,14 sekúndum sem er undir hans besta árangri en meðvindur var 2,2 m/s sem er rétt yfir löglegum mörkum.

Hér má sjá öll úrslit mótsins og hér má sjá myndir frá mótinu.