ÍR-ingar Íslandsmeistarar

Það voru ÍR-ingar sem hlutu flest stig í heildarstigakeppni félagsliða í dag og hlutu 58 stig. FH-ingar voru í öðru sæti með 48 stig og Blikar í því þriðja með 20 stig. Það voru spretthlaupararnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarson sem hlutu flest stig samkvæmt stigatöflu Alþóða Frjálsíþróttasambandsins. Guðbjörg hlaut 1065 stig og Kolbeinn 1049 stig bæði fyrir 200 metra hlaup. Samtals voru fjögur mótsmet sett og voru tíu afrek sem náðu yfir 1000 stig.

María þrefaldur Íslandsmeistari

FH-ingurinn María Rún Gunnlaugsdóttir fór á kostum um helgina en hún varð Íslandsmeistari í hástökki, kúluvarpi og grindahlaupi. Á fyrri deginum keppti hún í hástökki og stökk hæst 1,73 metra og var hársbreidd frá 1,77 metra sem væri nýtt persónulegt met. Á seinni deginum þurfti hún að hlaupa á milli greina þar sem kúluvarpið og langstökkið var á sama tíma. Það hindraði hana þó ekki frá því að bæta sinn persónulega árangur í báðum greinum. Hún varpaði kúlunni 13,20 metra sem er bæting um 32 sentímetra og stökk 5,94 metra í langstökki. Hún fékk ekki mikla hvíld eftir þessar tvær greinar þar sem hún þurfti og hlaupa beint í grindina en hún var aldeilis ekki hætt að toppa sig og kom í mark á 8,59 sekúndum sem er  einnig nýtt persónulegt met. 

Hársbreidd frá lágmarki

Ármenningurinn ungi Kristján Viggó Sigfinnsson var í stuði í hástökkinu í dag en hann stökk hæst 2,12 metra sem er hans ársbesti árangur. Hann átti frábærar tilraunir við 2,16 sem hefði tryggt honum þáttökuréttindi á HM U20. Kristján er aðeins 17 ára gamall og verður spennandi að sjá hvort honum takist að ná HM U20 lágmarkinu en hann er nú þegar búin að ná lágmarki á EM U20.

Sentímetra stríð í langstökki kvenna

Mikil spenna var í langstökki kvenna en það var ÍR-ingurinn Hildigunnur Þórarinsdóttir sem bar sigur úr býtum. Eftir þrjár umferðir var það María Rún sem leiddi keppnina með stökk upp á 5,94 metra. Í fimmtu umferð var staðan sú að Birna og Hildigunnur voru með jafn langt stökk, 5,99 metra, Birna var þó með lengra annað stökk sem setti hana í fyrsta sæti. Í síðasta stökki hitti Hildigunnur vel á það og náði lengsta stökk keppninar, 6,02 metra.

Heildarúrslit mótsins má finna hér.