ÍR bikarmeistari

13. Bikarkeppni FRÍ innanhúss fór fram í dag þar sem ÍR stóð uppi bikarmeistari. ÍR endaði með 112 stig og sjö gullverðlaun, fjórum stigum meira en FH sem varð í öðru sæti með 108 stig og 6 gullverðlaun. Breiðablik varð svo í þriðja sæti með 95 stig og tvö gull. Kvennakeppnina sigraði FH með 57 stig, ÍR varð í öðru sæti með 53 stig og Breiðablik í því þriðja með 47 stig. Í karlakeppninni sigraði ÍR með 59 stig, FH í öðru með 51 stig og Breiðablik í þriðja með 48 stig. Á mótinu voru sett tvö Íslandsmet og fjögur mótsmet.

Guðbjörg með jöfnun á Íslandsmetinu í 60m

Fyrstu úrslit dagsins voru í 60 metra grindarhlaupi kvenna. Þar sigraði María Rún Gunnlaugsdóttir fyrir FH með frábæru hlaupi. Hún kom í mark á tímanum 8,67 sekúndum sem er bæði mótsmet og persónuleg bæting hjá Maríu. Fyrstu gullverðlaun dagsins hjá Maríu af þremur og átta stig í pokann fyrir FH.

Næst var komið að strákunum að hlaupa 60 metra grindarhlaup. Ísak Óli Traustason, UMSS fylgdi eftir góðu keppnistímabili og kom fyrstur í mark. Tími Ísaks Óla var 8,29 sekúndur og er það nýtt mótsmet. Rétt á eftir honum á 8,35 sekúndum var Einar Daði Lárusson, ÍR sem er nýbyrjaður að keppa eftir löng meiðsli.

Í 60 metra hlaupi kvenna sigraði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR á 7,47 sekúndum og jafnaði þar með Íslandsmet vinkonu sinnar og liðsfélaga Tiönu Ósk Whitworth. Þær deila því Íslandsmetinu í 60 metra hlaupi ásamt því að deila stúlknametinu í 100 metra hlaupi. Í 60 metra hlaupi karla sigraði Blikinn og Íslandsmeistarinn frá því um síðustu helgi, Juan Ramon Borges á 7,04 sekúndum.

Mótið hálfnað og ÍR tekur forystuna

Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH er einn fremsti spretthlaupari landsins en getu einnig bæði stokkið hátt og langt. Hún var skráð í þrístökk og sigraði það með stökk upp á 11,48 metra.

Í 1500 metra hlaupi voru ÍR-ingar sigursælir og tóku gull bæði í karla- og kvennaflokki. Aníta Hinriksdóttir sigraði á tímanum 4:43,72 mínútum og Sæmundur Ólafsson á 4:06,96 mínútum.

Í kúluvarpi kvenna sigraði Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki með 12,86 metra kast. Rétt á eftir henni varð Helga Margrét Haraldsdóttir, ÍR með 12,53 metra. Átta greinum af 16 er nú lokið og mótið því hálfnað. ÍR hefur tekið forystuna í stigakeppninni með 53 stig. FH sem leiddu stigakeppnina eftir þrístökkið hafa dottið niður í annað sætið og eru með 50 stig.

Ólympíufarinn engu gleymt

Fyrirfram mátti búast við harðri baráttu milli Kristins Torfasonar, FH og Þorsteins Ingvarssonar, ÍR í langstökkinu. Þorsteinn hafði betur og sigraði þegar hann stökk 6,98 metra. Kristinn stökk 6,57 metra.

Í 400 metra hlaupi kvenna mættust þær Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR og Þórdís Eva Steinsdóttir, FH eins og sem oft áður. Þær höfðu báðar nú þegar unnið ein gullverðlaun og kepptust um að bæta öðru í safnið. Þórdís Eva sigraði á Íslandsmótinu um síðustu helgi en nú var komið að Guðbjörgu Jónu. Guðbjörg sigraði á 55,60 sekúndum og aðeins 4/100 úr sekúndu á eftir henni eða á 55,64 sekúndum kom Þórdís Eva í mark.

Í 400 metra hlaupi karla sigraði Kormákur Ari Hafliðason, FH á 48,78 sekúndum. Rétt á eftir honum varð Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR á 49,05 sekúndum.

Í kúluvarpi karla sýndi Óðinn Björn Þorsteinsson að hann hefur engu gleymt og sigraði örugglega með 16,06 metra kast. Tómas Gunnar Gunnarsson Smith varð annar með 14,72 metra kast.

Íslandsmet í boðhlaupinu

Síðstu tvær einstaklingsgreinarnar til að klárast voru hástökk kvenna og stangarstökk karla. María Rún Gunnlaugsdóttir, FH stökk hæst allra, eða 1,76 metra sem er bæting á hennar besta árangri. Í stangarstökkinu sigraði Mark Wesley Johnson, ÍR þegar hann stökk yfir 4,50 metra. Aðrir keppendur voru einnig að gera góða hluti og voru fjórir keppendur af átta að jafna eða bæta sinn besta árangur.

Kvennasveit FH í 4×200 metra boðhlaupi sigraði á nýju Íslandsmeti félagsliða. Sveitin samanstóð af Maríu Rún Gunnlaugsdóttur, Dórótheu Jóhannesdóttur, Melkorku Rán Hafliðadóttur og Þórdísi Evu Steinsdóttur. Þær komu í mark á tímanum 1:38,29 mínútum.

Í karlaflokki sigraði FH-ingar einnig. Sveitin sem samanstóð af Hinriki Snæ Steinssyni, Trausta Stefánssyni, Bjarna Pál Pálssyni og Kormáki Ara Hafliðasyni kom í mark á 1:28,79 mínútum.

Hér má sjá myndir frá mótinu.

Öll úrslit mótsins má sjá hér.